Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Eiríksstaðir teknir í notkun

23.01.2021 - 11:42
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Landspítali tók í gær í notkun 3.400 fermetra húsnæði að Eiríksgötu 5. Þar verður klínísk starfsemi, fjarheilbrigðisþjónusta og göngudeildarþjónusta fyrir konur með brjóstakrabbamein.

Húsið hefur fengið nafnið Eiríksstaðir en það er einnig þekkt sem Templarahöllin. Komur í húsið verða, þegar það er komið í fulla virkni, tæplega 300 á dag og um 60 þúsund á ári. Í húsinu voru áður skrifstofur Landspítala sem fluttu snemma á síðasta ári í Skaftahlíð 24. Þar verður meðal annars göngudeildarþjónusta fyrir gigtarsjúkdóma innkirtlasjúkdóma, erfðaráðgjöf, augnsjúkdóma. 

Á Eiríksstöðum er einnig gert ráð fyrir aðstöðu fyrir fjarheilbrigðisþjónustu og göngudeild fyrir konur með brjóstakrabbamein. 
Páll Matthíasson forstjóri Landspítala segir í forstjórapistli sínum í gær að Eiríksstaðir séu ómissandi hluti af húsnæðiskapli Landspítala, sem snýst um endurnýjun húsnæðis og nýbyggingar spítalans svo að hann megi standa undir nafni sem þjóðarsjúkrahús. 

Meðfylgjandi myndskeið var tekið á Eiríksstöðum í gær.