Kristín Lea Sigríðardóttir hefur gengið í ýmis störf innan kvikmyndageirans. Hún er leikkona og rekur fyrirtæki sem sér um leikaraval ásamt eiginmanni sínum en einnig hefur hún tekið að sér umsjón með kynlífsatriðum í kvikmyndum.
Kristín Lea tók að sér leikþjálfun í Hjartasteini, fyrstu kvikmynd leikstjórans Guðmundar Arnars Guðmundssonar. Þegar Guðmundur hóf tökur á sinni annarri kvikmynd, sem nefnist Berdreymi, hafði framleiðsluteymið heyrt af Itu O‘Brien, sem er forsprakki þess sem á ensku kallast „intimacy coordination“ en þýtt hefur verið sem nándarþjálfun. Í Berdreymi er erfitt atriði með tveimur unglingsdrengjum og var ákveðið að Kristín Lea tæki að sér sér að leiða ungu leikarana í gegnum atriðið. Hún fór í framhaldi af því á námskeið hjá O‘Brien og svo „beint í djúpu laugina í tökur“.
Nándarþjálfun er sprottin af #metoo-hreyfingunni, segir Kristín Lea. „Það er Harvey Weinstein sem kemur þeim bolta af stað eins og flestir þekkja. Þá er kallað eftir breytingum og sérstaklega þar sem að þetta sprettur út úr kvikmyndabransanum þá þurfti að gera eitthvað þar. Allir sem ég hitti í vinnunni veltu fyrir sér af hverju þetta hefði ekki komið fyrr. En sem betur fer er þetta komið núna.“
Vandmeðfarið atriði með leikurum undir lögaldri
Það hafa heyrst sögur af því í gegnum tíðina þegar farið hefur verið yfir mörk leikara. „Maður hefur alveg heyrt því miður af nokkrum atvikum,“ segir Kristín Lea en það sé mikill vilji innan stéttarinnar um að bæta vinnuumhverfið hvað þetta snertir. „Þetta er ekki bara gott fyrir leikara, heldur fyrir framleiðsluna og leikstjóra líka. Það vill enginn lenda í óþægilegri stöðu. Það er heldur enginn að reyna það en það getur allt gerst ef það er ekki hugsað út í þessa hluti.“