Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Danmörk í átta liða úrslitin

Mynd: EPA-EFE / REUTERS POOL

Danmörk í átta liða úrslitin

23.01.2021 - 19:08
Kvöldleikur heimsmeistaramótsins í handbolta var viðureign Danmerkur og Japans. Dagur Sigurðsson mætti með lærisveina sína í Japan gegn ríkjandi heimsmeisturum Danmerkur. Danir unnu leikinn og eru komnir í 8-liða úrslit mótsins.

Danir þurftu að spjara sig án eins besta handknattleiksmanns allra tíma, Mikkel Hansen, í leiknum en hann glímir við magakveisu líkt og hornamaðurinn Jóhan Hansen.

Þess í stað lék Emil Jakobsen sinn fyrsta leik á mótinu eftir að hafa verið í einangrun og greinilegt að hann var hungraður því eftir einungis 12. mínútna leik hafði hann skorað 4 mörk. Japanir héldu vel í við heimsmeistarana í fyrri hálfleik en munurinn á liðunum var þrjú mörk þegar mest lét. Japanir skoruðu síðasta mark fyrri hálfleiksins og minnkuðu metin í 19-17.

Í seinni hálfleiknum byrjuðu Danir betur en þegar tæplega 20. mínútur voru eftir af leiknum hrukku Japanir aftur í gang og Kohei Narita kom þeim í tveggja marka fjarlægð frá heimsmeisturunum 24-22. Eftir það hins vegar tóku Danir öll völd á vellinum og skoruðu næstu fjögur mörk og lögðu grunninn að góðum sigri. Lokakaflinn var sömuleiðis í eigu Dana sem unnu 34-27 og tryggðu sig um leið í 8-liða úrslitin á mótinu.