Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Þetta fylgir því að vera á Siglufirði“

22.01.2021 - 08:23
Mynd: RÚV / Óðinn Svan Óðinsson
Rýming vegna snjóflóðahættu er enn í gildi á Siglufirði, óvissustig er á Norðurlandi og Siglufjarðarvegur er enn ófær. Íbúar á Siglufirði eru misórólegir yfir stöðunni en einn segir að veðrið setji skemmtilegan svip á tilveruna. Gígja Hólmgeirsdóttir ræddi við íbúa í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

„Þetta er allt í lagi, sko. Maður hefur viðmið frá því í fyrra, það var hræðilegt. Svo maður hefur búið sig undir þetta. Auðvitað er hræðilegt á skíðasvæðinu að skálinn sé farinn í frumeindir en maður finnur ekki fyrir ennþá neinni hræðslu eða þannig,“ segir Ásgrímur sem býr rétt við rýmingarsvæðið. „Garðurinn hefur alveg sýnt að hann skilar sínu,“ bætir hann við.

Þórhildur, sem segist vera aðkomumanneskja, segir veðrið „hryllilegt“ og hlær. „Ég er ekki vön svona,“ segir hún, og að henni þyki mjög óþægileg tilfinning að vegir séu lokaðir, ekki síst vegna þess að maðurinn hennar sé fyrir sunnan og komist ekki heim. „Ég var mjög hrædd þegar snjóflóðahætta var virkjuð, en ég skil það mjög vel. Og ég á frábæran tengdapabba sem ég fór til og gisti hjá í nótt,“ segir hún.  „Það er ekkert panic-mode hérna, en þetta er óþægilegt og fólk hefur barist fyrir betri samgöngum til Siglufjarðar, ef eitthvað kemur upp á og allir vegir eru lokaðir,“ segir hún.

Gunnsteinn Ólafsson segir óvenjulegt að vera á Siglufirði í samfelldu slæmu veðri. „En þetta er bara eins og hvað annað, maður heldur þetta út og sinnir sinni vinnu og reynir að láta þetta ekki trufla sig mikið. Ég bý reyndar í litlu timburhúsi og það skekkst til. Það er mjög sérkennilegt þegar maður er að fara að sofa að þá hristist húsið og þegar maður er ekki vanur slíku þá setur þetta svona skemmtilegan svip á tilveruna. Þetta fylgir því að vera á Siglufirði, maður getur átt von á því að komast ekki neitt,“ segir hann.

„Mér líður bara ágætlega,“ segir Elva Sif. „Mamma mín býr á þessum stað sem var rýmdur, svo hún gisti bara hjá mér í nótt. En þetta er mjög skrítið, og frá því að snjóflóðavarnargarðarnir voru gerðir hefur ekki verið rýmt áður. Þetta er skrítið og óöryggi,“ segir hún.