Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Snjóflóðahætta á norðanverðum Vestfjörðum — Óvissustig

22.01.2021 - 18:35
Ísafjörður, Skutulsfjörður, Loftmynd. Dróni
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Óvissustigi vegna snjóflóðahættu hefur verið lýst yfir á norðanverðum Vestfjörðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Ekki er talin vera snjóflóðahætta í byggð en fylgst er með aðstæðum.

Í morgun féllu tvö snjóflóð að vegi á Eyrarhlíð og seinnipartinn féll flóð í Seljalandshlíð í Skutulsfirði. Þá féllu tvö lítil snjóflóð utan við Flateyri í gær og fjögur flóð hafa fallið í norðanverðum Súgandafirði, þar af þrjú í sjó en þau ollu ekki flóðbylgju.

Á vef Veðurstofunnar segir að ekkert flóðanna hafi verið stórt. Áfram sé spáð svipuðu veðri næsta sólarhringinn, norðnorðaustanátt og éljum, en það dragi úr ofankomu og vindi aðfaranótt sunnudags.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu felur í sér aukinn viðbúnað snjóflóðavaktar Veðurstofunnar og snjóathugunarmanna. Þá er haft samráð við lögreglu og almannavarnir á svæðinu vegna snjóflóðahættu sem upp kann að koma í byggð.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV