Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rýmingu ekki aflétt á Siglufirði í dag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Enn er hættustig vegna snjóflóðahættu á Siglufirði og rýmingu þar verður ekki aflétt að svo stöddu. Það er óvissustig á öllu Norðurlandi og snjóflóðhætta á Vestfjðrum er að aukast. Það er mikil ófærð á öllu norðanverðu landinu, skafrenningur og slæmt skyggni.

Gul viðvörum tók gildi í morgun fyrir allt Norður- og Austurland og gildir fram á sunnudag. Þar er spáð hvassri norðanátt og áframhaldandi ofankomu með tilheyrandi samgöngutruflunum. 

Spáir aukinni úrkomu og áfram rýming á Siglufirði  

Ekki er vitað til þess að snjóflóð hafi fallið á Norðurlandi síðan flóð féll í Héðinsfirði í gær. Lítið hefur bætt í snjó á Siglufirði í nótt, en þar er skafrenningur í fjöllum og gengur á með dimmum éljum. Sveinn Brynjólfsson er ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni en þar var fundað um stöðuna nú fyrir hádegi. „Það sést nú kannski ekkert mjög vel til fjalla, það er dálítið dimmur éljagangur. En búist er við að það auki úrkomuna upp úr hádegi í dag ennþá meira og það verði meira samfellt. Þannig að við höfum ekki viljað aflétta rýmingunni á meðan sú aukning gengur yfir í veðrinu.“

Aukin snjóflóðahætta á Vestfjörðum

Miðað við veðurspána segir Sveinn ekki líklegt að rýmingu á Siglufirði verði aflétt fyrr en á sunnudag. En ástandið sé metið reglulega og dagurinn í dag verði notaður til að skoða snjóalög betur. Hann segir að snjóflóðahætta sé að aukast á Vestfjörðum og þar er staðan í nánari skoðun. Í morgun féll lítið snjóflóð ofan vegarins um Eyrarhlíð, milli Ísafjarðar og Hnífsdals, en veginum var þó ekki lokað. Þá er óvissustig vegna snjóflóðahættu í Súðavíkurhlíð.

Mikil ófærð, skafrenningur og slæmt skyggni

Það er ágætlega fært inn Djúp og Steingrímsfjarðarheiði og þaðan suður Strandir. Vegurinn um Þröskulda er lokaður. Skafrenningur og slæmt skyggni er á Holtavörðuheiði. Á Norðurlandi er Þverárfjall lokað og þæfingsfærð á Öxnadalsheiði. Búið er að opna Siglufjarðarveg og veginn fyrir Ólafsfjarðarmúla, en þar er óvissustig vegna snjóflóðahættu. Víkurskarð er lokað, þæfingsfærð er í Hófaskarði og ófært um Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði. Fyrir austan er þungfært á Fjarðarheiði og þæfingsfærð um Fagradal. Lokað eru um Breiðdalsheiði og Öxi. Greiðfært er á öllu sunnanverðu landinu.