Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ný ráðgjöf um loðnuveiðar - 54.200 tonn

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Hafrannsóknastofnun hefur lagt til rúmlega 54 þúsund tonna loðnukvóta á yfirstandandi vertíð. Þetta er ákveðið í framhaldi af niðurstöðum mælinga út af Austfjörðum fyrr í vikunni.

Ráðgjöfin byggir á meðaltali tveggja mælinga á stærð hrygningarstofns loðnu. Annarsvegar á niðurstöðum bergmálsleiðangurs í desember og hinsvegar á samanlögðum niðurstöðum tveggja bergmálsleiðangra í janúar.

Loðnan fyrir austan land viðbót við fyrri mælingu

„Fyrri mælingin í janúar, upp á samtals 144 þúsund tonn, var takmörkuð að því leiti að engar mælingar voru gerðar í Grænlandssundi sökum hafíss. Ennfremur var magn loðnu á austur hluta svæðisins langt undir því sem mældist í desember,“ segir í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun. „Seinni mælingin í janúar var á afmörkuðu svæði úti fyrir Austfjörðum, og þar mældust um 319 þúsund tonn. Það eru taldar yfirgnæfandi líkur að loðnan austan við land hafi ekki verið hluti af mælingunni fyrr í mánuðinum og því eru þessar tvær mælingar teknar saman og gefa mat upp á 463 þúsund tonn.“

Kemur í stað ráðgjafar frá því í desember

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofn loðnu í mars verði yfir 150.000 tonnum að teknu tilliti til afráns. Saman minnka þessar mælingar óvissu í stofnmati og samkvæmt því leiðir þessi mæling til veiðiráðgjafar upp á 54.200 tonn á vertíðinni. Þetta kemur í stað fyrri ráðgjafar frá því í desember upp á 22.000 tonn. 

Stefnt að nýjum rannsóknaleiðangri eftir helgi

„Stefnt er að því að fara til frekari loðnumælinga eftir helgi. Er þá markmiðið að fara yfir svæðið norðan við yfirferðina sem skipin náðu að ljúka áður en þau þurftu frá að hverfa í vikunni, sem og útbreiðslusvæðið fyrir norðan og norðvestanlands. Vænst er til þess að fá með þessu móti heildarmælingu á stærð stofnsins og verður ráðgjöfin endurskoðuð með tilliti til þess,“ segir í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar í dag.