Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mælti fyrir frumvarpi um villt dýr

22.01.2021 - 21:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson hefur mælt fyrir frumvarpi um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Meðal breytinga er að veiðimönnum sem notast við hjólastól verður heimilað að stunda veiðar á vélknúnum ökutækjum.

Í frumvarpinu er lögð aukin áhersla á dýravernd og dýravelferð og alhliða vernd villtra fugla, villtra spendýra og helstu búsvæða þeirra. Eins er kveðið á um lögfestingu válista vegna villtra fugla og villtra spendýra og að sérstakar stjórnunar- og verndaráætlanir verði gerðar fyrir alla helstu stofna og tegundir villtra dýra.

Ákvarðanir um vernd og veiðar byggi þannig á vísindalegum og faglegum forsendum, en gerð áætlananna verður samvinnuverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar og eiga þær að liggja til grundvallar ákvarðanatöku í málaflokknum. Í frumvarpinu er kveðið á um að allar veiðar á villtum dýrum, þ.m.t. hlunnindaveiðar, eigi að vera sjálfbærar, mælt er fyrir um virka veiðistjórnun og veiðieftirlit á landinu öllu og að tekið verði með markvissum hætti á tjóni sem villt dýr og fuglar valdi. 

„Segja má að lögfesting stjórnunar- og verndaráætlana fyrir villta dýrastofna sé í raun hjartað í þessu frumvarpi og meginbreytingin frá gildandi lögum um þetta efni. Með gerð stjórnunar- og verndaráætlana er lagður mikilvægur grunnur að því að ávallt verði byggt á haldbærum, faglegum og vísindalegum upplýsingum við vernd, stýringu og stjórnun á stofnum villtra dýra. Á þeim aldarfjórðungi síðan lögin tóku gildi hefur margt tekið breytingum, ekki einungis í náttúrunni sjálfri heldur líka í afstöðu til nýtingar og umgengni við hana. Ég er sérstakur talsmaður þess að við leggjum vísindin að leiðarljósi í allri okkar ákvarðanatöku og þetta frumvarp er því kærkomin breyting á núgildandi lögum“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Í frumvarpinu eru listaðar upp helstu breytingar:

 1. Víðtækari markmiðsákvæði og lagfæringar á gildissviði.
 2. Ítarlegri skilgreiningar á hlutverki og verkefnum stofnana ráðuneytisins og annarra aðila sem fjalla um mál þessi.
 3. Aukin áhersla á alhliða vernd villtra fugla og villtra spendýra og helstu búsvæða þeirra í ljósi þess að þau eru mikilvægur hluti af náttúru Íslands.
 4. Aukin áhersla á dýravernd og velferð villtra fugla og villtra spendýra.
 5. Komið til móts við sérstakar þarfir veiðimanna sem varanlega eru bundnir við notkun á hjólastól þannig að þeir hafi eins og kostur er möguleika á að stunda veiðar eins og aðrir.
 6. Lagðar til breytingar á þeim veiðitækjum sem óheimilt er að nota.
 7. Válistar vegna villtra fugla og villtra spendýra lögfestir.
 8. Gerðar verði stjórnunar- og verndaráætlana fyrir allar tegundir eða stofna villtra fugla og villtra spendýra.
 9. Ákvarðanir um vernd og veiðar á grundvelli laganna byggi á vísindalegum og faglega unnum stjórnunar- og verndaráætlunum.
 10. Allar nytjaveiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum verði sjálfbærar.
 11. Breytingar á veiðikortakerfinu til einföldunar.
 12. Tekið verði með markvissari og skipulagðari hætti á tjóni vegna villtra fugla og villtra spendýra.
 13. Veiðistjórnun og veiðieftirlit verði lögfest fyrir allar tegundir veiða á villtum fuglum og villtum spendýrum.
 14. Sala á veiðifangi villtra fugla og villtra spendýra byggist á því að umræddur veiðistofn þoli slíka sölu með sjálfbærum hætti.

Í frumvarpinu er gert grein fyrir undanþágu fyrir veiðimenn sem nota hjólastól. Þeim verður samkvæmt frumvarpinu leyft að veiða með skotvopnum af vélknúnum ökutækjum.

„Gert er ráð fyrir að þeim sem varanlega eru bundnir við notkun á hjólastól verði veitt aukið svigrúm til að stunda og njóta frístundaveiða. Almenna reglan við veiðar hérlendis er að einungis sé heimilt að nýta vélknúin ökutæki til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum en óheimilt sé að skjóta frá slíkum tækjum. Undanþágan sem kveðið er á um gerir ráð fyrir að heimilt verði að veita þeim sem varanlega eru bundnir við að nota hjólastól leyfi til að skjóta frá kyrrstæðum vélknúnum ökutækjum á vegum eða merktum vegaslóðum eða utan vega ef skilyrði náttúruverndarlaga um akstur á snævi þakinni og frosinni jörð eru uppfyllt,“ segir í frumvarpinu.