Upphaf norska sæluríkisins snúið í leikform
Í augum útlendinga lítur Noregur gjarnan út eins og algjört lukkuland eða sæluríki, lífið er gott og þjóðarhagur blómlegur. Norsku þættirnir Sæluríkið segja söguna af upphafi norska olíuævintýrisins í Stafangri. Stórútgerðarmanni bæjarins finnst sjálfsagt að ríkið stýri olíuvinnslunni en það eigi ekki að reka olíufélag. Útgerðarfyrirtækin séu til dæmis góð í rekstri.
Anna, dóttir bláfátæks bónda, bendir honum á að hann sem útgerðarmaður hafi enga þekkingu á olíu og hagnaðurinn geti orðið gríðarlegur. Já einmitt, þeir sem eru vanir að sýsla með auðæfi eru bestir í því, álítur útgerðarmaðurinn. ,,Finnst þér í alvörunni að af því þú ert réttur maður á réttum tíma á réttum stað þá eigi afkomendur þínir í marga ættliði að vera forríkir?“ spyr Anna en útgerðarmaðurinn lætur sig ekki.
Olíustefnan og almannagæði norsku vatnalaganna 1909
Alveg frá því norsku olíudraumarnir fóru að rætast á 7. áratugnum var pólitíska stefnan sú að já, ríkið ætti að stjórna olíuvinnslunni, líka reka ríkisolíufélag og hagnaðurinn að koma öllum til góða. Viðmiðunin um almannagæði var sótt í norsku vatnalögin frá 1909 sem kváðu á um að norska þjóðin ætti þá auðlind og ætti að njóta efnahagslegs ávinnings hennar.
Íslensk togstreita eignaréttar og almannagæða frá upphafi
Fossar og vatnsréttur voru líka til umræðu á Íslandi á fyrstu áratugum 20. aldar og þar tókust á sjónarmið um eignarétt annars vegar. Hins vegar um almannagæði, að hverir, laugar og ölkeldur skyldu ,,með landsgæðum taldar,“ eins og þá heyrðist.
Eignarétturinn varð ofan í vatnalögunum 1923. Og síðan lengi vel almennt togstreita milli þessara tveggja sjónarmiða í íslenskum umræðum um náttúruauðlindir. Nú síðast um auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárinnar.
Andstætt Danmörku: ekki norskt einkaleyfi á olíuvinnslu
En þá að norsku olíunni. Erlendu olíufélögin voru höll undir einkaleyfi gegn því að fjármagna olíuleitina. Í Sæluríkinu biðja fulltrúar bandarísks olíufélags um smágreiða, einkaleyfi eins Mærsk-samsteypan fékk í Danmörku þó Mærsk hefði reyndar enga sérþekkingu þá á olíu. Nei, kom ekki til greina, Norðmenn ætluðu ekki að vera eins vitlausir og Danir.