Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Hörkuverkefni að glíma við fyrir þetta unga lið okkar“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Hörkuverkefni að glíma við fyrir þetta unga lið okkar“

22.01.2021 - 15:58
Ísland mætir Frakklandi á eftir í öðrum leik í milliriðli. Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, segir Frakkland með gríðarlega öflugt lið og að það verði hörkuverkefni fyrir ungt lið Íslands.

Leikurinn hefst kl. 17:00. Guðmundur segir erfitt verkefni framundan. „Þeir svona hafa verið að spila misvel, en eru með gríðarlega öflugan mannskap engu að síður og líkamlega sterkt lið en það eru ákveðnar breytingar hjá þeim þó þær séu kannski ekki jafn miklar og hjá okkur. Við erum líklega að ganga í gegnum stærstu kynslóðaskipti í tugi ára, við Íslendingar, svo það er svolítill munur þar á. Þeir eru með gott lið og þetta verður fróðleg viðureign,“ segir Guðmundur

Þeir keyra upp á gífurlegum hraða, hverjar eru helstu leiðirnar til að hemja það?
„Við verðum bara að vera snöggir til baka og fljótir að snúa og spila okkar vörn og ná henni áfram. Þá held ég að við náum að standa gegn þeim varnarlega sko ég hræðist það minna. En við þurfum að koma okkur í góð færi á móti þeim, þetta eru mjög líkamlega sterkir leikmenn varnarlega og hávaxnir og það verður þrautin þyngri satt að segja,“ segir Guðmundur.

Þá segir hann skotgetu franska liðsins fyrir utan vera afar mikla. „Þeir eru með þrjár stórkostlegar örvhentar skyttur með mikinn stökkkraft þannig að við þurfum að stoppa það en það dugir auðvitað ekki til þeir eru með góða línumenn og öfluga, þrjá heimsklassa línumenn þannig að þetta verður hörkuverkefni að glíma við, fyrir þetta unga lið okkar,“ segir hann.

Ætlaru að gera einhverjar breytingar sóknarlega?
„Við erum búnir að fara yfir hvar möguleikarnir liggja á móti þeim. Það eru alltaf áherslubreytingar milli leikja eftir því hvernig þeir spila vörnina. Þá segir hann hraðaupphlaupin einnig mikilvæg. Til að létta á sóknarleiknum líka, við skulum sjá hvernig þetta gengur,“ segir hann.

Vill sjá hvort Kári geti stigið niður frönsku varnarmennina

Guðmundur gerði þrjár breytingar á hópnum fyrir leikinn í dag. Alexander Petersson er farinn til síns heima af persónulegum ástæðum og því ekki með í dag. Ómar Ingi Magnússon kemur í hans stað. Þá hvíla í dag þeir Arnór Þór Gunnarsson og Ágúst Elí Björgvinsson. Í þeirra stað koma Kári Kristján Kristjánsson og Viktor Gísli Hallgrímsson. „Arnór Þór er meiddur eiginlega við getum sagt það og við tökum ekki sénsinn á því að það verði verra þannig að við hvílum hann. Við mátum það svo að fá Viktor inn með Bjögga og það verður bara fróðlegt að sjá hvernig það gengur og Kári kemur inn í liðið og við stefnum á að byrja með hann fljótlega í leiknum og sjá hvort hann geti stigið þá niður þess frönsku varnarmenn, þeir munu líklega spila aftarlega á okkur og þá þurfum við að fá góðar blokkeringar frá honum,“ sagði Guðmundur.

Leikur Íslands og Frakklands hefst kl. 17:00 í beinni útsendingu á RÚV og er lýst beint í útvarpinu á Rás 2. Upphitun í HM-stofunni hefst kl. 16:30.