
Gul viðvörun, vetrarfærð og lokaðir fjallvegir
Vetrarfærð um allt norðanvert landið
Vetrarfærð er á flestum vegum á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi og fjallvegir víða lokaðir. Það á við um vel flesta fjallvegi á Vestfjörðum, Þverárfjall, Öxnadalsheiði, Víkurskarð, Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og Fagradal, og þar sem ekki er ófært er víðast hált eða flughált. Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út til aðstoðar ökumönnum í vanda á nokkrum stöðum nyrðra, þar á meðal á Öxnadalsheiði, þar sem snjóflóð féll á veginn.
Hálka er einnig víða á Vesturlandi, en greiðfært er á Suðurlandi.
Rýming vegna snjóflóðahættu enn í gildi
Rýming vegna snjóflóðahættu er enn í gildi á Siglufirði og óvissustig á Norðurlandi og Vestfjörðum. Mörg snjóflóð hafa fallið á svæðinu frá Siglufirði að Dalvík en ekki hefur frést af nýjum flóðum síðan í gær, segir á vef Veðurstofu Íslands.
Þar segir enn fremur að snjóað hafi nyrðra síðustu daga, í norðan- og norðaustanátt, og var úrkoman mest í gær og á mánudag. Lítið hefur snjóað síðan í ger en áfram er spáð N-átt með snjókomu og éljum næstu daga og því fylgst náið með veðri og aðstæðum.