Guðmundur Felix svaraði spurningum íslenskra blaða- og fréttamanna á Zoom-fundi fyrr í dag. „Það eru þrjú ár þangaði til við vitum árangurinn af þessari aðgerð,“ segir Guðmundur. Eftir ár geti hann vænst þess að vera kominn með hreyfigetu í olnbogann.
Hann segir að draugaverkir sem hann hafi haft í höndum og fingrum frá því hann missti handleggina hafi magnast eftir handleggja- og axlaágræðsluna. Hann hafi fundið sterkt fyrir fingrunum 2-3 dögum eftir aðgerðina. Læknarnir viti ekki hversu raunveruleg tilfinning er.
Minna hann á gömlu handleggina
Fyrst eftir að Guðmundur vaknaði eftir aðgerðina var hann ekkert alltof hrifinn af handleggjunum og fannst þeir eins og dúkkuhendur. „Svo sá maður hár á þeim sem maður kannaðist ekki við,“ segir Guðmundur. Um leið og hann fór aðeins að geta hreyft hendurnar breyttist þetta. „Og það furðulega er að mér finnst þær svolítið líkar gömlu höndunum mínum,“ segir Guðmundur. Hann hefur snert á sér kinnarnar og bringuna. „Ég á eftir að verða góður vinur þeirra og hugsa vel um þær. Mér líður vel með þær,“ segir Guðmundur.