Nú er gert ráð fyrir að No Time to Die verði frumsýnd 8. október þannig að aðdáendur njósnarans þurfa enn að bíða eftir því að sjá Daniel Craig túlka hann í síðasta skipti.
Fram kemur á vef The Guardian að ætlunin hafi verið að frumsýnt yrði í apríl en ástæða frestunarinnar er sú að kvikmyndahús um víða veröld eru lokuð og ekkert vitað hvenær starfsemi þeirra færist í fyrra horf.
Því hefur talsverðum fjölda stórmynda verið frestað æ ofan í æ frá því að faraldurinn skall á. No Time to Die var fyrsta stórmyndin sem frestað var á síðasta ári en til stóð að frumsýna hana í apríl það ár.
Ekkert varð heldur af sýningu myndarinnar í nóvember því framleiðendur hennar ákváðu í október að slá frumsýningu enn á frest. Nú teygist enn og aftur á því að Bond mæti í bíó.
Afþreyingariðnaðurinn um allan heim hefur orðið fyrir þungum höggum vegna faraldursins, fjölda viðburða af margvíslegu tagi hefur verið frestað eða þeir alveg slegnir af.
Í gær barst til að mynda tilkynning þess efnis að Glastonbury tónlistarhátíðinni hefði verið frestað annað árið í röð.