Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Finnst þeir leiðinlegir gæjar bara að horfa á þá“

Mynd: EPA-EFE / AP POOL

„Finnst þeir leiðinlegir gæjar bara að horfa á þá“

22.01.2021 - 18:52
„Fyrst og fremst er þetta bara hrikalega svekkjandi. Mér fannst við vera með þá varnarlega. Mér fannst vera lag að vinna þá núna,“ sagði Bjarki Már Elísson markahæsti leikmaður Íslands eftir tveggja marka tap, 28-26 á Frakklandi á HM í handbolta í kvöld.

„Við fáum dauðafæri í restina sem við klikkum á. Að sama skapi náum við ekki að stoppa þá hinum megin. En góð frammistaða frá liðinu fannst mér,“ sagði Bjarki sem valinn var maður leiksins. Hann skoraði níu mörk.

Flest marka Bjarka komu upp úr hraðaupphlaupum. „Akkúrat. Það fannst mér gott að sjá. Við fengum mikið af fyrsta tempó hraðaupphlaupum, sem er eitthvað sem ég hef saknað persónulega. Gott að fá þau inn í dag. En ég er bara hrikalega svekktur. Mér fannst vera lag að vinna þetta lið í dag og lækka aðeins hrokann í þeim. Mér finnst þeir leiðinlegir gæjar bara að horfa á þá sko. En þetta var svekkjandi,“ sagði Bjarki.