Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fimm fyrir bændur og búalið

Mynd með færslu
 Mynd: Sanja Marusic - Altin Gu¨n

Fimm fyrir bændur og búalið

22.01.2021 - 11:55

Höfundar

Hún er ekkert sérstaklega sveitó, fimman, að þessu sinni þó sumt gæti bent til þess. Sei, sei, nei, það er sko boðið upp á risa næntís smell sem allir kunna dansinn við í frábærri útgáfu Death Cab For Cutie, eineltisslagara skosku skóglápsglópana í Mogwai, Bicep virðast vera með hugann í Austurlöndum fjær, meðan Altın Gün er með hann í Austurlöndum nær og að lokum bjóða BadBadNotGood & Mf Doom upp á hlýlegan súkkulaði-jazz.

Death Cab For Cutie – Waterfalls

Ben Gibbard hefur verið duglegur við ábreiðslur í pestinni og hent á alnetið nýjum útgáfum af Bítlunum, Radiohead og fleirum. Nú fannst honum vera kominn tími til að taka fyrir listamenn úr Georgíuríki í USA og gaf út þröngskífuna Georgia EP. Þar er að finna útgáfur sveitarinnar af R.E.M.-laginu frábæra Fall On Me auk laga Cat Power, Neutral Milk Hotel, Vic Chestnut og auðvitað TLC, Waterfalls, sem allir næntískrakkar muna auðvitað dansinn við.


Mogwai – Ritchie Sacramento

Nýja plata Mogwai, As the Love Continues, kemur út 19. febrúar og Ritchie Sacramento er annar söngullinn af skífunni. Áður hafði kvartettinn sent frá sér lagið Dry Fantasy. Titillinn á laginu er eineltisgrín á vin Skotanna sem kallaði Ryuichi Sakamoto, Ritchie Sacramento á skosku.


Bicep – Sundial

Hressu Belfast-birnirnir í Bicep áttu frábæra söngla á síðasta ári sem flestir aðdáendur raftónlistar voru hrifnir af. Nú er komið að síðasta laginu sem verður gefið út áður en breiðskífan Isles kemur út á næstu dögum. Það er ekki síðra en fyrri sönglar en í Sundial fáum við indverskan blæ ofan á teknóið.


Altın Gün – Yüce Dağ Başında

Amsterdam-bandið Altin Gün hafa sent frá sér hressandi stuðlög síðustu ár en á dögunum sendu þau frá sér lagið Yüce Dağ Başında sem gefur fyrra efni lítið eftir í stuði og stemmningu. Það má greina örlitla stefnubreytingu en sveitin hefur sagt í viðtölum að þau séu að stefna á júrópoppaða syntasúpu á nýju plötunni sem hefur fengið nafnið Yol og kemur út 26. febrúar.


BadBadNotGood og Mf Doom - The Chocolate Conquistadors

Lagið The Chocolate Conquistadors er úr nýuppfærðum Grand Theft Auto, Cayo Perico Heist, og er flutt af kanadísku djassskúrkunum í BadBadNotGood og grímuklædda rapparanum MF Doom sem lést fyrir aldur fram í lok síðasta árs. Lagið er, eins og titillinn gefur til kynna, eins hlýlegt og sjóðheitur súkkulaðibolli með ríflegum rommdreitli á köldum vetrardegi.


Fimman á Spottanum