Árið 2019 var gerð sambærileg árás sömu nóttina á skrifstofur Pírata og Viðreisnar og einnig á skrifstofur Pírata ári áður. Það staðfestir Róbert Ingi Douglas, upplýsingastjóri Pírata, við fréttastofu.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir í samtali við fréttastofu að málin hafi ekki komið á hennar borð. Rannsóknir sem þau snerta séu í höndum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. „Ef þetta væri ógn gegn öryggi ríkisins þá væri þetta á okkar borði. Þetta er ekki komið þangað,“ segir hún.
Þórður segir að það veki hjá honum óhug að Samfylkingin hafi orðið fyrir árás í nótt. „Þetta er mjög óhugnanlegt, það er ekki hægt að segja annað,“ segir hann. Hann segir að skotárás á Valhöll sé enn til rannsóknar en að nú hafi öryggiskerfi Valhallar verið endurbætt til muna. „Það hafa verið brotnar rúður endurtekið á undanförnum árum en það var nýlega sem það kom í ljós og var staðfest að það hefði verið beitt skotvopnum. Engum datt það í hug til að byrja með. En mér finnst lögreglan taka þetta alvarlega,“ segir hann.
Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Vinstri grænna, segir að ekki hafi verið gerð árás á þeirra skrifstofur og Karen Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, segir að árásin í nótt hafi verði sú fyrsta. Linda Jónsdóttir, starfsmaður á skrifstofu Miðflokksins, segir skrifstofuna ekki hafa orðið fyrir árás.