Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Ég er alls ekkert hrædd eða neitt þannig“

22.01.2021 - 10:12
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Enn er hættustig vegna snjóflóða á Siglufirði en Ólafsfjarðarmúli var í gær opnaður í fyrsta skipti í tæpa fjóra sólarhringa. Sum húsanna sem voru rýmd standa undir snjóflóðavarnargarði og hafa ekki verið rýmd eftir að hann var reistur.

Það er enn hættustig vegna snjóflóða á Siglufirði og rýming sem boðuð var í gær er enn í gildi. Húsin sem rýmd voru eru við göturnar Norðurtún og Suðurgötu. Fyrir ofan húsin er varnargarðurinn Stóri-Boli sem reistur var um aldamótin. Sandra Finnsdóttir býr í Norðurtúni og þurfti að yfirgefa heimili sitt í gær. 

„Visslulega skrítið“

„Hér hef ég búið bara alla mína tíð með mömmu og pabba og svo keypt það en við höfum aldrei semsagt þurft að fara áður þannig að það var vissulega skrítið,“ segir Sandra. 

Er þetta óþægileg tilfinning?

„Já og nei ég er alls ekki bangin, við erum náttúrulega með þennan flotta garð sem að hefur alveg sannað sig. Ég er alls ekkert hrædd eða neitt þannig en það verður forvitnilegt að vita hvað veldur því að við þurfum að fara núna.“

„Ef eitthvað kemur uppá þá ertu fastur“

Eftir að snjóflóð féllu í Ólafsfjarðarmúla var veginum lokað í tæpa fjóra sólarhringa. Íbúar segja ástandið ekki boðlegt. 

„Ef eitthvað kemur uppá þá ertu fastur,Þetta er ekkert skemmtilegt en núna COVID höfum við hvort sem er ekki farið neitt en ég meina við fáum engar vistir á meðan og að er búið að vera lokað óvenju lengi núna. Ef eitthvað kemur uppá þá ertu fastur, þú kemst ekki neitt, slys og annað, hvert eigum við að fara,“ segir Gréta Ólafsdóttir, íbúi í Fjallabyggð. 

Bæjarstjórinn kallar eftir aðgerðum

Elías Pétursson, bæjarstjóri í Fjallabyggð tekur undir áhyggjur íbúa og kallar eftir aðgerðum og nefnir göng í því samhengi. „Það var lokað mikið síðasta vetur, er lokað núna og þetta er ekki í fyrsta skiptið í vetur þannig að það er alveg ljóst að menn verði að fara að skoða einhverjar langtíma- og framtíðarlausnir. Það getur ekkert nútíma samfélag unað við þetta.“