Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Býst við áframhaldandi innilokun í Fjallabyggð

22.01.2021 - 09:15
Mynd með færslu
 Mynd: Fjallabyggð
Bæjarstjóri Fjallabyggðar býst við því að Siglfirðingar verði meira og minna innlyksa í bænum næstu daga þar sem veðurhorfur séu ekki góðar. Vegurinn var opnaður á hádegi í gær en lokað að nýju í gærkvöldi. Snjóflóð féllu á Siglufirði á miðvikudag og hús voru rýmd.

Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, er á Siglufirði. Rætt var við hann í síma á Morgunvaktinni á Rás 1. Éljagangur var í nótt. Núna er skafrenningur og bætt hefur í vind. 

Vegurinn opinn í átta tíma

„Það er bara vont veður fram undan. Það er nokkuð fyrirséð að við verðum einangruð hér áfram,“ segir Elías. Það hafi verið meira og minna ófært til Siglufjarðar þessa vikuna. 

„Það var opnað aðeins í gær en það er búið að vera meira og minna ófært. Fólk hefur verið varað við að keyra vegna snjóflóðahættu,“ segir Elías. Ólafsfjarðarvegur hafi verið opnaður um hádegi í gær en lokað að nýju klukkan átta í gærkvöldi.

Elías segir að innilokunin hafi áhrif á bæjarbúa. Einnig á atvinnulíf. „Múlabergið sem er heimatogari kom inn til að landa, beið í svolítinn tíma en svo endaði það þannig að þeir þurftu að fara á Sauðárkrók með einhver 100 tonn og landa þar,“ segir Elías.

Vill fá göng

Ófærðin setji í uppnám skuldbindingar fólks eins og það að sækja sér læknisaðstoð.

„Í rauninni höfum við ákveðið þjóðin að setja þjónustu niður á færri staði en var í gamla daga sem þýðir það að samgöngur eru orðnar miklu mikilvægari,“ segir Elías. Hann geri sér ljóst að umbóta sé ekki að vænta alveg á næstunni,. 

„En það er alveg lágmark að menn fari að undirbúa þær einu lausnir sem eru skynsamlegar og eru til frambúðar og eru að bora í gegnum þessi fjöll sem við erum aflokuð af,“ segir Elías. Þetta hafi ekki verið sett á dagskrá.

Snjókoma vel fram yfir helgi

Honum líst illa á spána næstu daga. „Þegar ég skannaði veðurspána áðan virðist mér sem það eigi að bæta í snjó næstu daga. Við séum jafnvel að tala um snjókomu vel fram yfir helgi. Það eru svo margir þættir sem ráða þessu, vindátt og vinstyrkur, en mér finnst það frekar líklegt að við séum að horfa fram á einhverja daga þar sem það verður meira og minna lokað,“ segir Elías.