
Austin fyrsti þeldökki varnarmálaráðherra Bandaríkjanna
Loyd Austin er 67 ára, fyrrverandi hershöfðingi í Bandaríska hernum. Hann og Joe Biden hafa gefið það út að þeir vilji auka fjölbreytileika innan hersins, sem er stærsti vinnuveitandi Bandaríkjanna. Mikill meirihluti hermanna eru hvítir karlar, sérstaklega þeir sem eru hærra settir innan hersins. Reuters greinir frá þessu.
Og Austin beið ekki boðana. Fljótlega eftir að hann sór embættiseið hélt hann rakleiðis til Pentagon þar sem hann ræddi um aðgerðir gegn veirunni og aðkomu hersins í þeim efnum við hátt setta embættismenn innan varnarmálaráðuneytisins. Rúmlega 400.000 hafa látist af völdum veirunnar í Bandaríkjunum.
Austin þekkir það vel að vera fyrsti þeldökki maðurinn til að gegna ýmsum stöðum. Í gegnum tíðina hefur hann fengið þá nafnbót ítrekað fyrir afrek sín innan hersins. Hann settist í helgan stein innan hersins árið 2016.
„Þetta er í rauninni sorglegt. Það hefði ekki átt að taka þetta langan tíma fyrir okkur að komast hingað. Það hefði einhver átt að ná þessu á undan mér,“ sagði Austin í myndskilaboðum á Twitter fyrr í þessum mánuði.