Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

ASÍ: Innan við fjórðungur landsmanna styður bankasölu

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Innan við fjórðungur landsmanna er hlynntur sölu Íslandsbanka og stuðningurinn er langmestur meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Rúmlega helmingur landsmanna er andvígur sölunni. Þetta eru niðurstöður skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir ASÍ. Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að könnunin sýni skýrt að almenningur sé ekki hlynntur sölunni.

Tekjuháum líst betur á sölu Íslandsbanka

Könnunin sýnir að stuðningur við sölu Íslandsbanka er minnstur í millitekjuhópum en mestur í hæsta launaþrepinu. Stuðningurinn er einnig bundinn við stjórnmálaskoðanir: „Meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokks er hlynntur sölunni eða 56% en þar á eftir er stuðningur mestur meðal kjósenda Miðflokksins eða 32%. Minnstur er stuðningur meðal mögulegra kjósenda Sósíalistaflokksins þar sem nærri allir andvígir sölu Íslandsbanka. Að öðru leyti er andstaðan mest í röðum kjósenda Samfylkingarinnar (73%), þar næst Pírata (68%) og loks VG (65%). Þá vekur athygli að kjósendur Viðreisnar eru ólíklegri til að vera hlynntir sölu Íslandsbanka (13%) en kjósendur VG (23%),“ segir í erindi frá ASÍ.

Meirihluti styðji samfélagsbanka 

Í sömu könnun var athuguð afstaða fólks til þess að ríkið stofni samfélagsbanka. Fleirum en sex af hverjum tíu leist vel á það en 15 prósent sögðust andsnúin. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru líklegastir til að vera andsnúnir samfélagsbanka, og kjósendur Viðreisnar og Miðflokks eru líklegri en aðrir til að hafa efasemdir um ágæti hans.

Í föstudagspistli sem Drífa birti í dag skrifaði hún meðal annars um bankasöluna: „Það er augljóst mál að stjórnvöld eru ekki í takti við þjóðarvilja í þessu máli. Enn er unnið að því að keyra málið í gegn með hraði og áður en kosið verður í haust. En það er alveg kýrskýrt að þrýstingur á söluna kemur ekki frá almenningi. Hvaðan þá er von að spurt sé?“

Skoðanakönnunin var netkönnun, gerð dagana 14.-22. janúar 2021.

Úrtakið var 1588 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri. Svarhlutfallið var 52,5%.