Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

11 flugmenn Bláfugls boða verkfall

Mynd: aðsend mynd / aðsend mynd
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fordæmir ákvörðun flugfélagsins Bláfugls að segja upp 11 flugmönnum félagsins í miðri kjaradeilu. Það sé brot á lögum og jafnframt að ráða aðra flugmenn í staðinn á lægri kjörum. Kjaradeilan er hjá ríkissáttasemjara og hafa flugmenn boðað ótímabundið verkfall frá 1. febrúar.

Ákvörðun Bláfugls um að segja flugmönnunum upp, að því er virðist í þeim tilgangi að lækka launakostnaðinn, er umdeild. Félag Íslenskra atvinnuflugmanna mótmælti þessu harðlega eftir að flugmönnunum var sagt upp í lok síðasta árs. Fleiri félög hafa mótmælt uppsögnunum. 

Sagt upp í hagræðingarskyni

Flugfélagið Bláfugl hefur starfað hér frá því um aldamót. Í fyrra komst það í eigu erlends félags með aðsetur á Kýpur. Kjarasamningur við flugmenn var endurnýjaður til skamms tíma í vor í skugga COVID. Samið var til þriggja mánaða og því hófust kjaraviðræður á nýjan leik í haust. Flugmönnunum var sagt upp eftir að haldnir höfðu verið fimm samningafundir. Í tilkynningu frá félaginu kom fram að nauðsynlegt væri að segja þessum ellefu flugmönnum upp í hagræðingarskyni. 

Flugmennirnir ellefu eiga það sameiginlegt að þiggja laun samkvæmt kjarasamningi FÍA. Í tilkynningunni kom fram að þeir væru langhæst launuðu starfsmenn félagsins. Eftir uppsagnirnar yrðu starfsmenn Bláfugls 29 og sjálfstætt starfandi flugmenn 40. Félag íslenskra atvinnuflugmanna segir að sjálfstætt starfandi flugmenn sé annað orð yfir gerviverktaka. Klárlega séu á ferðinni félagsleg undirboð. Gerviverktaka og félagsleg undirboð séu bein ógn við flugöryggi.

Boða verkfall

Deilan er á borði ríkissáttasemjara. Einn óformlegur sáttafundur hefur verið haldinn. Deilan nær einungis til flugmanna sem starfa samkvæmt kjarasamningi Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Það eru þessir ellefu sem sagt var upp. Félagið hefur nú boðað verkfall frá 1. febrúar hjá þessum ellefu flugmönnum sem eru enn á uppsagnarfresti á miðnætti 1. febrúar. 

Vegið að grundvallarréttindum

Miðstjórn ASÍ fjallaði um málið á miðvikudaginn og mótmælir uppsögnunum harðlega.

„Alþýðusamband Íslands fordæmir enn eina tilraunina til félagslegra undirboða í flugrekstri hér á landi. Nú er það Bláfugl með fulltingi SA sem hefur sagt upp flugmönnum í miðri kjaradeilu með hótun um að „leita annarra leiða“ til að lækka launakostnað. Með slíkri framgöngu er vegið að grundvallarréttindum stéttarfélaga og þar með öllu launafólki á Íslandi,“ segir í ályktun miðstjórnar ASÍ 

Miðstjórn ASÍ bendir á að það sé ólöglegt að hafa áhrif á vinnudeilur með uppsögnum eða hótunum samkvæmt fjórðu grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Þá sé líka ólöglegt nýta sér þjónustu starfsmannaleiga sem ekki eru skráðar hér á landi. Skráðar starfsmannaleigur verða að fara eftir hérlendum kjarasamningum. ASÍ skorar á Vinnumálastofnun að nota allar þær heimildir sem hún hefur til að tryggja að ekki séu stunduð félagsleg undirboð og lögbrot á íslenskum vinnumarkaði.