Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Vilja selja 25-35 prósent í Íslandsbanka

21.01.2021 - 17:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og fjárlaganefndar þingsins leggur til að ríkið bjóði 25 til 35 prósent af hlutafé í Íslandsbanka til sölu í útboði sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, stefnir á að fari fram í vor. Nefndarmeirihlutinn vill að lagður verði grunnur að dreifðu eignarhaldi og fjölbreytileika í eigendahópi Íslandsbanka.

Meirihluti nefndanna vill tryggja dreift eignarhald með því að setja 2,5 til þriggja prósenta hámark á hlut hvers þess sem býður í hlutabréfin. Að auki verði tryggt að þeir sem bjóði í hluti undir ákveðinni krónutölu, svo sem einni milljón að markaðsvirði, verði ekki fyrir skerðingu ef eftirspurn eftir hlutabréfum er meiri en framboð í útboðinu.

Stjórnarandstæðingar gagnrýna áform um einkavæðingu og leggjast gegn því að hlutur í bankanum verði seldur núna.

Seðlabankinn skilaði einnig inn umsögn til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar segir að sala á 25 prósenta eignarhlut myndi hafa takmörkuð áhrif á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða bankans og laust fé í umferð.