Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Verður ljóðskáldið unga forseti Bandaríkjanna 2036?

epa08953065 American poet Amanda Gorman reads a poem during the inauguration of Joe Biden as US President in Washington, DC, USA, 20 January 2021. Biden won the 03 November 2020 election to become the 46th President of the United States of America.  EPA-EFE/Patrick Semansky / POOL
 Mynd: EPA

Verður ljóðskáldið unga forseti Bandaríkjanna 2036?

21.01.2021 - 13:02

Höfundar

Það má segja að 22 ára ljóðskáldið Amanda Gorman hafi heillað heimsbyggðina síðasta sólarhringinn. Hún er af mörgum talin ein skærasta stjarna innsetningarathafnarinnar sem fram fór í gær þegar Joe Biden og Kamala Harris tóku við embættum forseta og varaforseta Bandaríkjanna.

Amanda er yngsta skáld sögunnar til að flytja ljóð á innsetningarathöfn forseta. Ljóðið snerti við mörgum og það mátti sjá grímuklædd andlit þurrka tár af hvarmi enda þótti það lýsa vel bæði skuggum þess liðna og voninni fram undan. Hún talaði fyrir einingu og samtakamætti sem þjóðin þyrfti að öðlast á ný og að hafa hugrekki til að sjá og vera ljós í myrkrinu.

Ljóðið nefnist The Hill We Climb, eða Sú brekka sem við klífum, og vísaði hún í sundrungu í bandarísku þjóðfélagi, baráttu svartra í Bandaríkjunum og nýliðins atburðar þegar stuðningsmenn Trumps réðust inn í þinghúsið til að mótmæla niðurstöðum kosninganna.

„Hvar getum við fundið ljósið í þessum eilífa skugga?“ spurði hún meðal annars, og sagði einnig: „Við höfum séð öflin sem vilja heldur brjóta niður þjóðfélagið en að deila því, myndu rústa landinu ef það þýddi að fresta lýðræðinu.“ Lokaorð ljóðsins eru mörgum minnisstæð: „Það finnst alltaf ljós ef við aðeins erum nógu hugrökk til að sjá það, ef aðeins við erum nógu hugrökk til að vera það.“

Amanda er fædd árið 1998 og ólst upp hjá einstæðri móður í Los Angeles. Líkt og Joe Biden forseti Bandaríkjanna glímdi hún við málhelti sem barn en það hefur ekki stoppað hana. Hún var valin öndvegisskáld æskunnar í Los Angeles sextán ára, nam félagsfræði við Harvard-háskóla og hlaut virt alþjóðleg verðlaun ungra ljóðskálda á meðan hún var við nám. 

Fyrsta bók hennar, The One for Whom Food Is Not Enough, kom út árið 2015. Önnur bók hennar er væntanleg á þessu ári.

Hún benti á í ljóði sínu að þó þjóðin hefði upplifað erfiða tíma þá sé loks að renna upp sá merkisdagur þegar lítil og grönn svört stelpa, afkomandi þræla og alin upp af einstæðri móður, getur raunverulega látið sig dreyma um að verða forseti. Enda hefur Kamala Harris brotið blað í sögunni með því að vera fyrsta konan og fyrsti svarti og asíski varaforseti Bandaríkjanna.

Og Amanda hefur reyndar áður nefnt sjálfa sig í því samhengi. Árið 2017 fullyrti hún að hún myndi bjóða sig fram til forseta árið 2036 svo nú er bara spurning hvort hún standi við stóru orðin og gefi kost á sér eftir rúman áratug.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Lady Gaga söng þjóðsönginn og skartaði friðardúfu

Menningarefni

Gleymdar stjörnur vakna til lífsins fyrir Biden