Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Starfsemi Háskólans raskast til hádegis hið minnsta

Mynd: Sigríður Hagalín Björnsdótt / Sigríður Hagalín Björnsdótt
Öll starfsemi Háskóla Íslands, kennsla, rannsóknir og þjónusta á Háskólatorgi, í Gimli, Lögbergi, Árnagarði og í Aðalbyggingu liggur niðri að minnsta kosti til hádegis. Á þriðja þúsund tonna af vatni flæddi um háskólasvæðið í nótt þegar kaldavatnslögn við Suðurgötu gaf sig.

Þúsundir fermetra af skólahúsnæðinu liggja undir vatni. Í tilkynningu frá skólanum kemur fram að mikið verk sé framundan að koma aðstöðunni í samt horf. Slökkviliðið er að dæla vatni úr byggingunum.  

Í tilkynningu frá Veitum er greint frá því að lekinn hafi uppgötvast rétt fyrir klukkan eitt í nótt þegar þrýstingur féll í dreifkerfi kalda vatnsins vestan Snorrabrautar.

Vatnið fossaði út í um 75 mínútur áður en tókst að loka fyrir og um 2.250 tonn af vatni runnu yfir háskólasvæðið.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir upplýsingafulltrúi Veitna segir að endurnýjun vatnslagna við götuna hafi staðið yfir að undanförnu og lekinn sé tengdur þeim. 

Allir íbúar vestan Snorrabrautar eigi að vera komnir með kalt vatn að nýju eftir þrýstingsfallið í nótt.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV