Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skólum lokað í Portúgal

21.01.2021 - 16:05
epa08955645 Portuguese Prime Minister Antonio Costa leaves after a press conference after the meeting of the Council of Ministers at Sao Bento Palace in Lisbon, Portugal, 21 January 2021. The Prime Minister announced the closure of schools at all levels of education for 15 days to try to stop the spread of the new coronavirus Covid-19.  EPA-EFE/MIGUEL A. LOPES
Antonio Costa, forsætisráðherra Portúgals. Mynd: EPA-EFE - Lusa
Stjórnvöld í Portúgal tilkynntu í dag að öllum leikskólum, grunn- og framhaldsskólum ásamt háskólum yrði lokað í að minnsta kosti fimmtán daga frá og með morgundeginum. Dauðsföllum vegna COVID-19 faraldursins hefur fjölgað hratt þar í landi að undanförnu.

Portúgalar sluppu betur en margar Evrópuþjóðir í fyrstu bylgju farsóttarinnar. Í bylgju númer tvö hefur sigið á ógæfuhliðina, einkum upp á síðkastið. Tilkynnt var í dag að 221 hefði dáið síðastliðinn sólarhring af völdum COVID-19, tveimur fleiri en sólarhringinn þar á undan. Þetta er mesti fjöldi dauðsfalla á einum degi hingað til. Faraldurinn hefur til þessa dregið tæplega níu þúsund og sjö hundruð til dauða í landinu, að því er heilbrigðisyfirvöld greindu frá í dag.

Yfir þrettán þúsund og fimm hundruð smit voru greind í gær, um það bil ellefu hundruð færri en á þriðjudag, sem var metfjöldi á einum sólarhring. Sjúkrahús í Portúgal eru yfirfull og læknar og hjúkrunarfólk að niðurlotum komin. 

Antonio Costa forsætisráðherra tilkynnti að loknum ríkisstjórnarfundi í dag að skólum yrði lokað. Viðsjárverðir tímar væru fram undan, ekki síst vegna nýrra og bráðsmitandi afbrigða af kórónuveirunni sem ykju enn á vandann í heilbrigðiskerfinu. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV