
Skólum lokað í Portúgal
Portúgalar sluppu betur en margar Evrópuþjóðir í fyrstu bylgju farsóttarinnar. Í bylgju númer tvö hefur sigið á ógæfuhliðina, einkum upp á síðkastið. Tilkynnt var í dag að 221 hefði dáið síðastliðinn sólarhring af völdum COVID-19, tveimur fleiri en sólarhringinn þar á undan. Þetta er mesti fjöldi dauðsfalla á einum degi hingað til. Faraldurinn hefur til þessa dregið tæplega níu þúsund og sjö hundruð til dauða í landinu, að því er heilbrigðisyfirvöld greindu frá í dag.
Yfir þrettán þúsund og fimm hundruð smit voru greind í gær, um það bil ellefu hundruð færri en á þriðjudag, sem var metfjöldi á einum sólarhring. Sjúkrahús í Portúgal eru yfirfull og læknar og hjúkrunarfólk að niðurlotum komin.
Antonio Costa forsætisráðherra tilkynnti að loknum ríkisstjórnarfundi í dag að skólum yrði lokað. Viðsjárverðir tímar væru fram undan, ekki síst vegna nýrra og bráðsmitandi afbrigða af kórónuveirunni sem ykju enn á vandann í heilbrigðiskerfinu.