Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segja ekkert hæft í fullyrðingum um höll Pútíns

21.01.2021 - 22:14
epaselect epa08946362 A participant of a single protest in support of Russian opposition leader and anti-corruption activist Alexei Navalny holds a poster 'Freedom for Navalny, Putin on trial' in St.Petersburg, Russia, 18 January 2021. Alexei Navalny was detained after his arrival to Moscow from Germany on 17 January 2021. A Moscow judge on 18 January ruled that Navalny remains in custody for 30 days after his airport arrest.  EPA-EFE/ANATOLY MALTSEV
Þessi mótmælti í Sankti Pétursborg í Rússlandi á sunnudag. Frelsi fyrir Navalny og Pútín fyrir dóm, stendur á skiltinu.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Rússlandi segja það helberan þvætting að forseti landsins eigi glæsihöll við Svartahaf, líkt og Alexei Navalny heldur fram í nýju myndbandi. Stjórnarandstæðingurinn sendi frá sér myndband í fyrradag þar sem sagt er frá höllinni og að hún sé ein sú glæsilegasta í heimi, með ísknattleikssvelli og spilavíti, svo fátt eitt sé nefnt.

Yfirvöld neita því alfarið að Pútín tengist höllinni. Í myndbandinu segir Navalny að hún sé yfir 17.000 fermetrar að stærð. „Það er ekki ofsögum sagt að þetta sé leynilegasta mannvirki með ströngustu öryggisgæslu í öllu Rússlandi. Þetta er ekki sveitasetur eða íbúðarhús, þetta er heil borg, eða öllu heldur konungsríki,“ segir Navalny.

Á tveimur sólarhringum er myndbandið komið með yfir fjörutíu og fjórar milljónir áhorfa. Í því segir Navalny að vinir forsetans, sem hafi skuldað honum greiða, hafi fjármagnað bygginguna.

Navalny var handtekinn við komuna frá Þýskalandi til Moskvu á sunnudag. Hann var fluttur meðvitundarlaus til Berlínar í ágúst eftir að eitrað hafði verið fyrir honum í Síberíu. Í dag voru fimm nánir samstarfsmenn hans handteknir. Stuðningsmenn Navalny hafa boðað til mótmæla í yfir sextíu borgum Rússlands á laugardag. Á samfélagsmiðlum hvetur fólk aðra til að móta, þar á meðal á TikTok, og hafa stjórnvöld varað stjórnendur miðlanna við að dreifa upplýsingum um mótmælin til barna og ungmenna undir lögaldri. 

Þekktir leikarar og tónlistarmenn hafa síðustu daga lýst yfir stuðningi við Navalny. Fyrrum fyrirliði rússneska landsliðsins í fótbolta, Igor Denisov, lýsti svo í dag yfir stuðningi og þykja það nokkur tíðindi því íþróttafólk í landinu hefur ekki lagt það í vana sinn að mótmæla stjórnvöldum. Í myndbandi sem birt er á Twitter hjá rússneskum íþróttafjölmiðli, Sport.ru, segist hann ekki hafa neinn áhuga á stjórnmálum og að slíkan áhuga fái hann varla úr þessu. „En nú snýst þetta ekki lengur um pólitík. Ég vil styðja Alexei Navalny. Ég bið ekki um neitt. Ég vil bara styðja fjölskyldu hans, börnin hans, konuna hans og hann sjálfan,“ segir Denisov í myndbandinu.