
Segja ekkert hæft í fullyrðingum um höll Pútíns
Yfirvöld neita því alfarið að Pútín tengist höllinni. Í myndbandinu segir Navalny að hún sé yfir 17.000 fermetrar að stærð. „Það er ekki ofsögum sagt að þetta sé leynilegasta mannvirki með ströngustu öryggisgæslu í öllu Rússlandi. Þetta er ekki sveitasetur eða íbúðarhús, þetta er heil borg, eða öllu heldur konungsríki,“ segir Navalny.
Á tveimur sólarhringum er myndbandið komið með yfir fjörutíu og fjórar milljónir áhorfa. Í því segir Navalny að vinir forsetans, sem hafi skuldað honum greiða, hafi fjármagnað bygginguna.
Navalny var handtekinn við komuna frá Þýskalandi til Moskvu á sunnudag. Hann var fluttur meðvitundarlaus til Berlínar í ágúst eftir að eitrað hafði verið fyrir honum í Síberíu. Í dag voru fimm nánir samstarfsmenn hans handteknir. Stuðningsmenn Navalny hafa boðað til mótmæla í yfir sextíu borgum Rússlands á laugardag. Á samfélagsmiðlum hvetur fólk aðra til að móta, þar á meðal á TikTok, og hafa stjórnvöld varað stjórnendur miðlanna við að dreifa upplýsingum um mótmælin til barna og ungmenna undir lögaldri.
Þekktir leikarar og tónlistarmenn hafa síðustu daga lýst yfir stuðningi við Navalny. Fyrrum fyrirliði rússneska landsliðsins í fótbolta, Igor Denisov, lýsti svo í dag yfir stuðningi og þykja það nokkur tíðindi því íþróttafólk í landinu hefur ekki lagt það í vana sinn að mótmæla stjórnvöldum. Í myndbandi sem birt er á Twitter hjá rússneskum íþróttafjölmiðli, Sport.ru, segist hann ekki hafa neinn áhuga á stjórnmálum og að slíkan áhuga fái hann varla úr þessu. „En nú snýst þetta ekki lengur um pólitík. Ég vil styðja Alexei Navalny. Ég bið ekki um neitt. Ég vil bara styðja fjölskyldu hans, börnin hans, konuna hans og hann sjálfan,“ segir Denisov í myndbandinu.
Игорь Денисов сделал заявление об Алексее Навальном (@navalny)
Бывший капитан «Зенита», «Локомотива», «Динамо» и сборной России не ведет акаунты в соцсетях, а потому прислал видео в редакцию @sportsru pic.twitter.com/KJRH3bB9yA
— Sports.ru (@sportsru) January 21, 2021