Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Of snemmt að dæma Evrópusamflot um bóluefni sem mistök

21.01.2021 - 15:35
Mynd: Alþingi / Alþingi
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að það sé allt of snemmt að komast að þeirri niðurstöðu að það hafi verið mistök að fara í samflot með Evrópusambandinu um kaup á bóluefni. Hann var þó ekki tilbúinn að gefa því einhverja gæðaeinkunn.

Það var Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sem beindi spurningu sinni til fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í dag um samvinnu Íslands við ESB um kaup á bóluefni. Bergþór sagði að til dæmis Þjóðverjar væru að kljúfa sig frá samkomulagi Evrópuþjóða.

„Ég hef skilið það sömuleiðis þannig að ríkisstjórninni og okkur Íslendingum sé samkvæmt þessum samningum ekki fyrirmunað að leita til annarra framleiðenda sem mögulega kynnu að vilja bjóða fram bóluefni en eru ekki hluti af þeim fyrirtækjum sem eru inn í samningi við Evrópusambandið,“ sagði Bergþór.

Bjarni svaraði: „Ég held að það sé allt of snemmt að komast að þeirri niðurstöðu að það hafi verið mistök að fara í samflot með Evrópusambandinu jafnvel þótt ég ætli ekki hér að fara að fella einhverja gæðaeinkunn á nákvæmlega frammistöðu Evrópusambandsins samkvæmt þeim skuldbindingum sem þeir tóku á sig eða sambandið tók á sig gagnvart okkur í þessu máli.“

Ábyrgð stjórnvalda

Bjarni veltir fyrir sér hvort það hefði verið ábyrgt af íslenskum stjórnvöldum að taka ekki þátt í bóluefnasamkomulagi Evrópuþjóða.

„Í raun og veru stöndum við frammi fyrir spurningunni um það hvort það hefði hreinlega verið ábyrgt af íslenskum stjórnvöldum að fella sig ekki við það samkomulag sem þarna var undirliggjandi, að þetta væri dálítið allir fyrir einn og einn fyrir alla,“ sagði Bjarni.

„Og ef menn vildu freista gæfunnar einir og sér gagnvart hverjum og einum þeim framleiðanda sem Evrópusambandið var í samtali við, þá myndu þeir ekki geta notið góðs af heildarsamningi Evrópusambandsins við þá hina sömu. Það hefði verið mjög djörf ákvörðun.“

„Hún hefði til dæmis getað leitt til þess að við hefðum náð samningi við einhvern einn þeirra sem hefði síðan ekki verið sá sem var fyrstur á markað með lyfið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við skoðum þetta í því samhengi,“ sagði Bjarni.