Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kventónskáld í fókus á streymisviku tónskáldaþingsins

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock

Kventónskáld í fókus á streymisviku tónskáldaþingsins

21.01.2021 - 10:57

Höfundar

Alþjóðlega tónskáldaþingið Rostrum of Composers hefur verið haldið árlega frá árinu 1955. Á þingið mæta fulltrúar frá útvarpsstöðvum hvaðanæva úr heiminum með nýleg verk tónskálda frá heimalandi sínu í farteskinu. Hlustað er á verkin og í lok þingsins er kosið um þau bestu.

Verk íslenskra tónskálda hafa oftar en ekki notið mikillar velgengni á þinginu og komist á úrvalslista verka, sem þær útvarpsstöðvar sem taka þátt eru skulbundnar til að flytja. Tvívegis hafa íslensk verk lent í verðlaunasæti; verk Úlfs Hanssonar var í fyrsta sæti í flokki tónskálda 30 ára og yngri árið 2013 í Prag og verk Páls Ragnars Pálssonar, Quake, sigraði í aðalflokki árið 2018 í Búdapest.

Þinginu var frestað í fyrra vegna heimsfaraldursins en átti að fara fram í Belgrad í Serbíu í maí. Þess í stað var ákveðið að fara aðra leið og útbúa streymis-spilunarlista, Hidden treasure mixtape, með verkum kvenna sem samin voru á tímabilinu 1955-2020 eða allt frá því að þingið var haldið í fyrsta sinn. Þetta er gert til að vekja athygli á tónlist kvenna, sem oft hefur fallið í skuggann.

Framlag Rásar 1 til þessa verkefnis var kammeróperan Blóðhófnir eftir Kristínu Þóru Haraldsdóttir sem samin var á árunum 2016-2018 við verðlaunaljóðverk Gerðar Kristnýjar. Verkið flytur tónlistarhópurinn Umbra ásamt gestaleikurum.

Þar er forn saga Skírnismála sögð í nútímasöguljóði sem varpar ljósi á ofbeldi og valdbeitingu jötunmeyjarinnar Gerðar Gymisdóttur. Verkið er flutt af kvenröddum, stengjahljóðfærum og myndum í verki sem vísun í frumkraft og jarðneskju.

Nú standa yfir streymisdagar þar sem heyra má öll verkin sem send voru inn og má hlusta á þau hér til 24. janúar.