Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Handritin og listaverk Háskólans óhult í vatnsflóðinu

21.01.2021 - 11:04
Mynd: Aðsent / Aðsent
Kristinn Jóhannesson sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands segir handritin sem geymd eru í Árnagarði óhult eftir vatnsflóðið og hið sama eigi við um listaverkasafn skólans í Odda.

Kristinn segir tiltölulega lítið hafa flætt inn í Árnagarð en að mikið hafi flætt í Gimli sem tengir Háskólatorg, Odda og Veröld, hús Vigdísar. Vatnið hafi náð undir loft í Gimli, rafmagní hafi slegið út og að enn sé rafmagnslaust þar og unnið að dælingu.

Vatnið flæddi inn í göng sem tengja Háskólatorg og Veröld. Í göngunum háttar þannig til að gólf þeirra hallar upp í mót og náði vatnsflóðið því ekki inn í húsið. Vatnsdýpið í göngunum var þó um 1,5 metrar.

Nú í birtingu segir Kristinn aðstæður utandyra skoðaðar, en ljóst sé að leiðslan þar sem bráðbirgðatappi brast er milli Háskólatorgs og Aðalbyggingar norðan steinsteypts skúrs næst Suðurgötu austan megin.

Framkvæmdir hafi staðið um nokkra hríð við þessa vatnslögn. Þaðan halli til suðurs og austur þannig að vatnið náði óhindrað að renna umhverfis Háskólatorg og aðrar byggingar, þaðan inn í kjallara bygginga. 

Kristinn segir tiltölulega lítið vatn hafa streymt inn í kjallara Aðalbyggingarinnar en þó hafi þurft að klæðast stígvélum til að fara þar um. Kristinn segir að í birtingu sé verið að skoða betur hvernig málum er háttað utandyra svo betur megi átta sig á hvað gerðist.

Hann segir sömuleiðis ágætlega ganga að dæla burt vatninu, einna erfiðast sé ástandið í Gimli. Annars staðar sé nánast bara lokahnykkurinn eftir, hann hrósar jafnframt happi í þessu óhappi að vatnið var kalt.