
Fleiri fallið í farsóttinni en seinni heimsstyrjöldinni
Hvergi hafa fleiri veikst og dáið af COVID-19 en í Bandaríkjunum, þar sem um fjórðungur allra staðfestra smita í heiminum hafa greinst og um fimmtungur allra COVID-tengdra dauðsfalla.
Versti hjallinn mögulega framundan
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, minntist þeirra sem fallið hafa í farsóttinni á sérstakri minningarathöfn á þriðjudagskvöld. Í innsetningarræðu sinni sagði hann bandarísku þjóðina þurfa á öllum sínum styrk að halda til að komast í gegnum þennan dimma vetur, því mögulega væri erfiðasti og versti hjallinn framundan.
Forsetinn hafði áður lýst því yfir að allar aðgerðir ríkisstjórnar hans í baráttunni við faraldurinn verði í einu og öllu byggðar á vísindalegum grunni, öfugt við það sem tíðkaðist hjá forvera hans í Hvíta húsinu.
Á fyrsta degi sínum í embætti undirritaði hann forsetatilskipun um grímuskyldu í opinberum byggingum og almenningssamgöngum milli ríkja, og aðra um að Bandaríkin gangi aftur til liðs við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina. Þá bíður frumvarp hans um COVID-björgunarpakka upp á 1,9 billjónir Bandaríkjadala afgreiðslu þingsins.