Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Argentína ekki í neinum vandræðum með Japan

Mynd: EPA / EPA

Argentína ekki í neinum vandræðum með Japan

21.01.2021 - 14:00
Japan undir stjórn Dags Sigurðssonar er komið í milliriðla á heimsmeistaramótinu í handbolta og mætti Argentínu í fyrsta leik dagsins á mótinu. Japanir lentu strax í miklum eltingaleik í leiknum og náðu aldrei forystunni, úr varð tap gegn Argentínu.

Dagur og hans menn fóru með eitt stig í milliriðla eftir gott jafntefli gegn Króatíu. Argentína fór áfram með tvö stig eftir sigur á Barein.

Argentínumenn byrjuðu með látum og Frederico Pizzarro reyndist Japönum erfiður viðureignar en hann var kominn með níu mörk strax í fyrri hálfleik. Dagur tók leikhlé í stöðunni 6-2 og þá tók við besti kafli Japana í leiknum, þeir skoruðu þrjú mörk í röð og minnkuðu metin niður í eitt mark. Argentínumenn svöruðu hins vegar með öðrum 6-2 kafla og litu aldrei til baka eftir það. Staðan í hálfleik var 17-13 og í seinni hálfleiknum héldu Argentínumenn áfram að leika Japani grátt.

Fyrstu þrjú mörk seinni hálfleiksins komu frá Argentínu og fór munurinn í seinni hálfleik mest upp í sjö mörk. Japanir náðu aðeins að klóra í bakkann undir lok leiksins og fór svo að Argentína vann leikinn 28-24.