Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Umsækjendum fækkaði en fleiri fengu vernd

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Útlendingastofnun bárust fjórðungi færri umsóknir um alþjóðlega vernd í fyrra en árið áður, en þó hafa aldrei fleiri fengið vernd. Forstjóri Útlendingastofnunar segir líklegt að umsóknum fjölgi um leið og samgöngur milli landa verði greiðari.

Í fyrra bárust 654 umsóknir fólks af 52 þjóðernum um vernd hér á landi.  6% þeirra voru ríkisborgarar svokallaðra öruggra ríkja og um helmingur umsókna kom frá fólki sem þegar naut verndar í öðru Evrópuríki. Flestir umsækjendur komu frá Palestínu og næstflestir frá Írak. Karlar voru 55% umsækjenda, konur voru 20% og börn rúmur fjórðungur. Þar voru drengir fleiri en stúlkur.

631 fengu vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum sem er mesti fjöldi á einu ári, þrátt fyrir fækkun umsókna á milli ára. Kristín Völundardóttir forstjóri Útlendingastofnunar segir skýringarnar nokkrar.

„Sú stærsta er að það kom þó nokkur fjöldi hingað til lands frá Venesúela. Þessi hópur fékk vernd, skiljanlega. Síðan spilar COVID-19 einnig stórt hlutverk þarna því við breyttum verklagi til þess að mæta þeim ferðatakmörkunum og breytingum sem voru að eiga sér stað í ferðamáta alls heimsins. Það voru afturkallaðar ákvarðanir sem var búið að taka þannig að fleiri ákvarðanir fóru í efnismeðferð sem leiddi til veitingar verndar. Og svo er það þannig að þeir fá vernd sem þurfa vernd,“  segir Kristín.

Af þeim 631 sem fékk alþjóðlega vernd í fyrra fengu rúmlega 100 vernd eða dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldutengsla.  

Málsmeðferðartími styttist á milli ára og voru tæp 40% mála afgreidd á innan við þremur mánuðum. Kristín segir að það megi meðal annars rekja til þess að þó umsóknir séu færri hafi starfsfólki Útlendingastofnunar ekki fækkað. Hún segir líklegt að umsækjendum muni fjölga um leið og flugferðum hingað til lands fjölgi. Það hafi gerst síðasta sumar um leið og samgöngur urðu greiðari.

„Það verður hressileg fjölgun á komum frá júlí á síðasta ári og alveg út miðjan nóvember. Þessar tölur gefa okkur til kynna að á árinu 2021 megum við ekki sofa á verðinum og ganga út frá því að við verðum með sömu lágu töluna og í fyrra. Ég held það sé glapræði að ætla það,“ segir Kristín.