Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Umdeildur sendiherra Bandaríkjanna lætur af störfum

20.01.2021 - 17:44
Mynd með færslu
Jeffrey Gunther ásamt forseta Íslands Mynd: Bandaríska sendiráðið
Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, hefur látið af störfum. Hann greinir frá því í sérstöku ávarpi á Facebook-síðu sendiráðsins þar sem hann þakkar Trump fyrir „ótrúlegt tækifæri.“ Gunther hefur verið umdeildur í störfum sínum hér á landi. Hann var meðal annars sagður hafa óskað eftir því að fá vopnaðan lífvörð þar sem lífi hans væri ógnað hér á landi.

Gunter segist í ávarpinu hafa myndað sterk tengsl við ríkisstjórn landsins, fyrirtæki og íbúa og þannig þjónað hagsmunum Bandaríkjanna og bandarískra þegna. 

Gunter tók við embætti sendiherra Bandaríkjanna hér á landi í júlí 2019 en þá hafði engin bandarískur sendiherra verið hér á landi um nokkurt skeið. Hann var pólitískt skipaður af forsetanum fyrrverandi og hafði stutt framboð hans með fjárframlögum. Hann er menntaður húðsjúkdómafræðingur og skurðlæknir. 

Gunther var gagnrýndur nokkuð síðasta sumar þegar hann deildi tísti frá Donald Trump þar sem hann kallaði kórónuveiruna „Kínaveiruna.“   Nokkrum dögum seinna birtust fréttir í bandarískum og íslenskum fjölmiðlum um að Gunter teldi lífi sínu ógnað á Íslandi og vildi því fá vopnaða lífverði. 

Bandaríska fréttastöðin CBS sagði sendiherrann ofsóknarbrjálaðan. Hann vildi fá að bera vopn sjálfur, fá stunguhelt vesti og skotheldan bíl.  Þá var hann sagður sannfærður um að margir starfsmenn sendiráðsins á Íslandi væru hluti af „djúpríkinu“.

Auk þess var hann sagður hafa neitað að snúa aftur til Íslands eftir frí í Kaliforníu. Það hafi ekki verið fyrr en Mike Pompeo, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, skipaði honum að mæta til starfa að Gunter kom aftur til Íslands.

Í október sakaði sendiráðið síðan Fréttablaðið um falsfréttir og ábyrgðarlausa blaðamennsku.  Blaðið hafði þá flutt frétt af því að þrátt fyrir COVID-smit hjá sendiráðinu hefði öllum starfsmönnum verið gert að mæta til að aðstoða við flutning sendiráðsins í nýtt húsnæði við Engjateig.

Sendiherrann hefði krafist þess til að hægt væri að ljúka flutningum fyrir forsetakosningarnar.  Sendiráðið kannaðist ekki við að smit hefði komið upp innan veggja þess.

Reikna má með að nokkur tími líði þar til nýr sendiherra Bandaríkjanna kemur til Íslands. Staðgengill sendiherra stýrir þá sendiráðinu í millitíðinni.