Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Trump tryggði öryggi fjölskyldu sinnar næsta hálfa árið

20.01.2021 - 21:06
Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Donald Trump lét það verða eitt af sínum síðustu verkum sem forseti Bandaríkjanna að skrifa undir skipun þess efnis að fjórtán úr Trump-fjölskyldunni fái vernd frá leyniþjónustu Bandaríkjana næsta hálfa árið. Forsetahjónin eiga rétt á öryggisgæslu til æviloka og varaforsetahjónin næsta hálfa árið en Trump taldi rétt að börn hans og barnabörn fengju einnig öryggisgæslu.

Washington Post greinir frá. 

Bandarískur almenningur mun þannig greiða fyrir öryggisgæslu Ivönku Trump og eiginmanns hennar, Jared Kushner. Þau höfðu mikil ítök í Hvíta húsinu á meðan Trump var forseti og voru meðal nánustu ráðgjafa hans.  Börnin þeirra þrjú fá einnig öryggisgæslu.

Donald Trump Jr, Eric Trump og eiginkona hans Laura og Tiffany Trump, dóttir forsetans fyrrverandi,  fá sömuleiðis öryggisgæslu næsta hálfa árið á kostnað skattgreiðenda. Trump yngri á fimm börn og fá þau einnig öryggisverði.

Blaðið segir að forseti Bandaríkjanna geti óskað eftir öryggisgæslu hjá hverjum sem er. Það sé aftur á móti óvenjulegt að forseti skuli fyrirskipa um svo umfangsmikla öryggisgæslu hjá fjölskyldu sinni.

Blaðið rifjar upp að bæði Bill Clinton og George Bush hafi óskað eftir öryggisgæslu fyrir dætur sínar þegar þeir létu af embætti. Dætur Baracks og Michelle Obama voru einnig með öryggisverði þegar Obama hætti. Ekki fengust upplýsingar um hvenær því hefði verið hætt. 

Fram kemur í umfjöllun blaðsins að öryggisþjónustan muni hafa í nægu að snúast því nú þurfi að sinna fjölskyldu forsetans og varaforsetans. Biden á tvö uppkomin börn og sjö barnabörn sem öll verða með öryggisverði og Harris á tvö stjúpbörn sem einnig verða með öryggisverði. 

Þá segir blaðið að ferðagleði Trump-fjölskyldunnar hafi kostað skattgreiðendur milljónir dollara. Opinber gögn sýni að 4.500 ferðir sem þau fóru í hafi krafist þess að öryggisverðir fylgdu þeim. Þessar ferðir voru ýmist á vegum ríkisstjórnarinnar eða Trump-fjölskyldufyrirtækisins.