Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Trump sagður íhuga að stofna flokk föðurlandsvina

epa08939654 (FILE) US President Donald J. Trump dances on stage after speaking during a campaign rally at the Southern Wisconsin Regional Airport in Janesville, Wisconsin, USA, 17 October 2020. Trump was facing Democratic Party nominee and former Vice President Joe Biden in the 03 November 2020 general election. The presidency of Donald Trump, which records two presidential impeachments, will end at noon on 20 January 2021.  EPA-EFE/KAMIL KRZACZYNSKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, er sagður íhuga að stofna nýjan stjórnmálaflokk, flokk föðurlandsvina. Þetta er fullyrt í bandaríska blaðinu Wall Street Journal og haft eftir ónafngreindum heimildarmönnum sem sagðir eru þekkja til innanbúðarmála í Hvíta húsinu.

Samkvæmt frétt blaðsins hefur Trump viðrað þessa hugmynd við náið samstarfsfólk sitt að undanförnu. Markmið hans er sagt vera að viðhalda sem mestum pólitískum áhrifum eftir að hann lætur af forsetaembætti.

Þungavigtarfólk í röðum Repúblikana andsnúið forsetanum

Þótt fjöldi þingmanna í báðum deildum Bandaríkjaþings hafi haldið tryggð við forsetann hefur þungavigtarfólk í Repúblikanaflokknum, innan þings og utan, verið honum mótdrægt eftir að hann tapaði kosningunum í nóvember. Andstaða þeirra óx eftir því sem forsetinn endurtók oftar staðlausar fullyrðingar sínar um kosningasvik og magnaðist enn eftir að hann hvatti til áhlaups á þinghúsið í Washington á dögunum.

Sjá einnig: Forsetinn og annað valdamikið fólk espuðu lýðinn

Það kemur stjórnmálaskýrendum vestanhafs því ekki á óvart að Trump sjái pólitískri framtíð sinni betur borgið í eigin flokki, sem hann mun vilja nefna The Patriot Party, eða Föðurlandsvinaflokkinn.

Í kveðjuávarpi sínu til bandarísku þjóðarinnar í gær ræddi forsetinn þessa hugmynd ekki berum orðum. Hins vegar sagði hann að stjórnmálahreyfingin sem hann og hans fólk hefðu hrint af stokkunum í hans forsetatíð væri einstök og saga hennar rétt að byrja.

Mikið persónufylgi

Allar tilraunir til að stofna flokk til höfuðs stóru flokkunum tveimur, Repúblikönum og Demókrötum, hafa mistekist til þessa. Trump á hins vegar gríðarmiklu persónufylgi að fagna og það sem skilur hann frá flestum öðrum sem slíkt hafa reynt í gegnum tíðina er sá mikli stuðningur sem hann nýtur meðal kjörinna fulltrúa Repúblikanaflokksins í báðum deildum Bandaríkjaþings. 

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV