Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stunda námið í Færeyjum, Danmörku, Grænland og hér

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Danmörk, Færeyjar, Ísland og Grænland. Þannig hljómar kennsluskráin hjá fyrsta nemendahópnum í Norður-Atlantshafsbekknum. Í honum eru nemendur frá þessum fjórum löndum sem ferðast þeirra á milli og læra saman. „Þetta er gott framtak vegna þess að þetta er Norður-Atlantshafssamstarf og það er svo mikilvægt,“ segir verkefnastjóri erlendra verkefna hjá Versló.

Þetta er heilmikið ævintýri, segja fyrstu nemendurnir í svonefndum Norður-Atlantshafsbekk en þeir koma frá Danmörku, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Nemendurnir eru hálfnaðir með þriggja ára menntaskólanám.  

Hópurinn er núna kominn til Íslands og var í sögutíma í Verslunarskólanum þegar fréttastofa leit við. Námið hófst á Norður-Sjálandi i Danmörku haustið 2019. Ári seinna var svo stefnan tekin á Færeyjar og þar voru nemendurnir fram að áramótum. 

Hvernig er þetta?

„Ótrúlega skemmtilegt og heilmikið ævintýri og reynsla,“ segir Svava Þóra Árnadóttir frá Íslandi. 
 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV

Hvað stendur upp úr?

„Allt, vá, það er ekki hægt að velja bara eitthvað eitt. Þetta er svo fjölbreytt og skemmtileg og ólíkt,“ segir Svava Þóra.

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV

„Þetta er mjög áhugavert að fá að kynnast annarri menningu á þenna hátt, þ.e.a.s að vera í bekk með fólki frá öðrum löndum. Þetta er einstakt tækifæri að hafa fengið að kynnast nemendum frá ólíkum löndum og lífinu hjá fjölskyldum þeirra,“ segir Kalle Almsøe Thomsen frá Danmörku.

En hvernig er þetta nám ólíkt hefðbundnu námi?

 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV

„Ég held nú að það sem við lærum sé ekki óhefðbundið en við lærum það á annan hátt eða það er meiningin. Við erum frá fjórum ólíkum löndum og það er tekið tillit til þess. Í sögutímum lærum við til dæmis sögu viðkomandi lands. Þessu er blandað saman í kennslunni,“ segir Femja Poulsen frá Færeyjum.

Ferðalagi bekkjarins er ekki lokið. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV

„Við förum til Grænlands eftir veruna á Íslandi. Við byrjum 10. ágúst í Sisimiut,“ segir Malik Jonas Geisler Ziemer frá Grænlandi.

Og hlakkar þú til þess?

„Já, sannarlega. Ég sakna þess dálítið að vera í skóla á Grænlandi,“ segir Malik Jonas.

Hlakkar til að bjóða krökkunum upp á þorramat

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

Guðrún Inga Sívertsen, starfsmanna- og þróunarstjóri Verzlunarskólans, segir að Norður-Atlantshafsbekkurinn sé nám til stúdentsprófs skv. danskri námsskrá. Fyrsta árið hafi krakkarnir búið í sjálfstæðri búsetu í Danmörku en hér á landi og í Færeyjum búi þau hjá fjölskyldum. Þau læri dönskuna vel á þessu. 

„Þannig að þau fá alla flóruna og fá að kynnast íslenskri menningu. Það verður gaman að bjóða þeim upp á þorramat,“ segir Guðrún.

Mikilvægt að efla Norður-Atlantshafssamstarf

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

Bertha S. Sigurðardóttir, verkefnastjóri alþjóðaverkefna hjá Verzlunarskólanum, segir ný hópur hafi sest á skólabekk í Norður-Atlantshafsbekknum og að leikurinn verði endurtekinn næstu þrjú haust hið minnsta. 

„Þetta er gott framtak vegna þess að þetta er Norður-Atlantshafssamstarf og það er svo mikilvægt. Þau kynnast hvert öðru. Það er svo mikilvæg að krakkar kynnist hvert öðru og þau fara kannski í nám sem tengist Norður-Atlantshafsverkefnum,“ segir Bertha.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV