Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Snjóflóð olli skemmdum á skíðasvæðinu á Siglufirði

20.01.2021 - 10:37
Mynd með færslu
 Mynd: Skíðasvæði Siglufjarðar - Facebook
Snjóflóð féll á skíðasvæðinu á Siglufirði í morgun, meðal annars á skíðaskálann. Ekki er vitað hversu miklar skemmdir hafa orðið.

Þetta var ljóst þegar starfsmenn á skíðasvæðinu í Skarðsdal fóru þangað upp í morgun. Egill Rögnvaldsson, svæðisstjóri skíðasvæðisins, segist ekki vita nákvæmlega hversu miklar skemmdir hafa orðið.

Hann segir flóðið meðal annars hafa fallið á skíðaskálann og fært hann af grunninum. Þá féll flóðið á gáma skíðaleigunnar í fjallinu og snjótroðari færðist úr stað.

Egill segir þá strax hafa hafa snúið við þegar ljóst hvað hafði gerst og farið burt af svæðinu. Hann vilji helst ekki vera mikið inni á skíðasvæðinu eins og staðan er og ef von er á fleiri snjóflóðum.

Þeir hafi því ekki getað skoðað ástandið nákvæmlega en við fyrstu sýni séu skemmdirnar töluverðar.

Ófært hefur verið til og frá Fjallabyggð frá því í fyrrakvöld, en bæði Ólafsfjarðarmúli og Siglufjarðarvegur eru lokaðir vegna snjóflóðahættu. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er verið að ryðja í gegnum tvö snjóflóð í Múlanum og í kjölfarið verður metið hvort hægt verður að opna veginn þar um. 

Óvissustig er á utanverðum Tröllaskaga vegna snjóflóðahættu.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV