Leikurinn var jafn strax í upphafi og þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan 6-5 Sviss í vil. Bæði lið vörðust vel en íslenska liðið átti í vandræðum sóknarlega. Staðan var 10-9 fyrir Sviss í hálfleik. Fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik voru svipaðar og Sviss leiddi með einu marki.
Eftir rúmlega tveggja mínútna leik í seinni hálfleik fékk Alexander Petersson
svo beint rautt spjald eftir að hafa slegið Nicolas Raemy í andlitið. En áfram hélt skákin og eitt mark skildi liðin tvö að þegar tíu mínútur voru eftir 16-15 fyrir Sviss. Allt var í jánum þegar fjórar mínútur voru eftir 17-17.
Þegar tvær mínútur voru eftir komust Svisslendingar hins vegar tveimur mörkum yfir með marki frá Marvin Lier 19-17. Gísli Þorgeir minnkaði muninn svo í eitt mark þegar ein og hálf mínúta var eftir 19-18. Andy Schmid kom Svisslendingum hins vegar í tveggja marka forystu þegar hálf mínúta var eftir og með því var leikurinn unninn fyrir Sviss.
Einkar slakur sóknarleikur Íslands átti stærstan þátt í tapinu en aðeins einn leikmaður skoraði meira en Björgvin Páll Gústavsson, markvörður liðsins, í leiknum. Ólafur Guðmundsson var markahæstur með 4 mörk, en nokkrir gerðu tvö og þar á meðal Björgvin.
Ísland er nú með tvö stig í milliriðlunum, Sviss fer upp fyrir Ísland með sigrinum vegna innbyrðisviðureignar. Tvö efstu liðin í milliriðlinum komast í 8-liða úrslit. Sem stendur eru Frakkland og Portúgal með 4 stig í riðlinum, Sviss, Ísland og Noregur með 2 stig og Alsír án stiga.