
Skila greinargerð um Arnarholt fyrir mánaðarmót
Borgarstjórn samþykkti tillögu í gær um að ráðast í heildstæða athugun á starfsemi Arnarholts. Tillagan felur í sér að borgarstjóri fari þess á leit við forsætisráðherra að allsherjarúttekt fari fram á starfsemi Arnarholts, sem og öðrum sambærilegum meðferðar- eða vistheimilum. Allir borgarfulltrúar samþykktu tillöguna.
Samkvæmt svari forsætisráðuneytisins óskaði Velferðarnefnd Alþingis eftir greinargerð frá forsætisráðuneytinu í nóvember, þar sem farið verði yfir hvernig hliðstæðar rannsóknir hafi farið fram, hvaða leiðir séu heppilegastar og hvert umfang rannsóknar kunni að verða, vegna þeirra upplýsinga sem kunni að vera til staðar í ráðuneytinu. Einnig hafi verið óskað eftir umfjöllun um hvort ráðuneytið telji fyrir hendi nægilega lagastoð vegna mögulegrar rannsóknar.
„Vinna við umrædda greinargerð stendur yfir innan forsætisráðuneytisins og gert er ráð fyrir því að henni verði skilað til velferðarnefndar Alþingis fyrir 1. febrúar nk., eins og nefndin óskaði,“ segir í svari ráðuneytisins.