Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sala færeyska félagsins Magn hluti endurskipulagningar

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Færeyska olíufélagið Magn, sem er að stærstum hluta í Skeljungs, hefur verið auglýst til sölu á markaði. Salan er talin hluti af endurskipulagningu Skeljungs en ekki liggur fyrir hverjir vilji kaupa.

Fyrr í janúar bárust fréttir af því að fjárfestahópurinn Strengur hafi náð yfir helmingi atkvæða hlutafjár í Skeljungi.

Hópurinn er byggður upp af félögunum RES 9 ehf. í eigu Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Arngrímsdóttur, RPF ehf. í eigu Þórarins A. Sævarssonar og Gunnars Sverris Harðarsonar og 365 ehf. í eigu hjónanna Ingibjargar Pálmadóttur og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Hann er jafnframt stjórnarformaður Skeljungs.

Í þættinun Breddin á vef færeyska ríkisútvarpsins var fullyrt í gær að salan á færeyska félaginu Magn nú sé hluti af valdabaráttu innan fyrirtækisins. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, rekur að nú standi til að breyta viðskiptahugmyndinni að baki Skeljungi með því að auka þjónustu við rafbíla og að leggja frekari áherslu á smásöluverslun.

Lífeyrissjóðir sem eigi stóran hlut í Skeljungi séu andvígir þeim hugmyndum og þeirri ætlun Strengs að selja Magn til að greiða skuldir. Ekki liggi fyrir á þessari stundu hverjir hafi áhuga á kaupa Magn en Þórður Snær nefnir Olís og Haga sem mögulega kaupendur. Enn hafi þó ekkert verið gefið upp í þeim efnum.

Í umfjöllun Kringvarpsins segir að Magn sé eins og gæs sem verpir gulleggjum, mikill hagnaður hafi verið af rekstri þess undanfarinn rúman áratug, það eigi meira að segja við eftir efnahagshrunið 2008.