Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Olía, kvótakerfið og þjóðarsjóður

20.01.2021 - 11:06
Norski olíuborpallurinn Aker 8 á Valhallar-olíusvæðinu í Norðursjó. - Mynd:  / 
Alveg frá því á sjöunda áratugnum að hyllti í norska olíuævintýrið var það viðmiðun að olían væri þjóðarauðlind sem ætti að koma allri þjóðinni til góða. Liður í þessu var stofnun þjóðarsjóðs fyrir um þrjátíu árum. Á Íslandi hefur einnig verið rætt um auðlinda- eða þjóðarsjóð, hugmyndir sem hafa flækst saman við hvað ætti að telja auðlind í þjóðareign.

Bölvun náttúruauðlinda lengi ljós

,,Það má almennt sjá að í löndum, sem búa við mestar alsnægtirnar eru lífskjörin fátæklegust.“ Þetta gat að lesa í breska tímaritinu Spectator í október 1711. Nei, hugmyndin um bölvun náttúruauðlinda, mótuð af Richard Auty fyrir tæpum þrjátíu árum, var ekki ný af nálinni. Hugtak Autys byggði á því sem blasti almennt við: að í löndum, sem áttu og eiga mikið ríkidæmi í jarðmálmum, naut almenningur ekki góðs af. Þetta eru oft gjörspillt lönd, þar sem auðlindaarðurinn rennur í fárra vasa, ekki í ríkissjóð.

,,Trilljón dala krílið“ norska

Annað jarðefni, olía, hefur líka víða reynst vandmeðfarin auðlind. ,,Trillion Dollar Baby,“ eða ,,Trilljón dala krílið,“ heitir bók ástralska blaðamannsins Paul Cleary frá 2017. Undirtitillinn segir norsku olíusöguna í hnotskurn: „Hvernig Noregur sigraði olíurisana og uppskar endingargóð auðæfi.“

Sæluríkið og norska olíusagan

Norsku sjónvarpsþættirnir um Lykkeland, eða Sæluríkið, sem Rúv endursýnir nú, segja sögu olíuævintýrsins norska frá 1969 til 1972, þegar olían fannst og framleiðslan hófst. Þar kemur skýrt fram að grunnhugmyndin var þessi að Noregur í heild nyti góðs af.

Olíuarðurinn í þjóðarþágu

Eins og Arne Rettedal borgarstjóri í Stafangri segir í Sæluríkinu: Grunnsýn ríkisstjórnarinnar er að þróuð verði olíustefna sem miði á að náttúruauðlindir á norska landgrunninu komi öllu samfélaginu til góða. – Stefna, felld í olíuboðorðin tíu í byrjun 8. áratugsins og sem Rettedal les þarna upp. Rettedal var íhaldsmaður en í þessum efnum var samhljómur með norska Íhaldsflokknum og svo Verkamannaflokknum, sem lengstum var við völd á þessum tíma.

Norskur sigur yfir alþjóðlegum olíurisum

Stefnan var að ríkið stýrði olíuvinnslunni, þar af undirtitillinn í bók Clearys um sigur Noregs yfir alþjóðlegu olíurisunum, sem voru einlæglega á móti þessari stefnu en urðu á endanum að lúta henni. Afraksturinn var meðal annars Norski olíusjóðurinn, nú stærsti þjóðarsjóður í heimi, sem forvaltar þennan auðlindaarð Norðmanna. Lög um sjóðinn voru sett 1990.

Stjórn annarrar auðlindar mótuð um líkt leyti og Norski olíusjóðurinn stofnaður

Á þessum árum var stjórn annarrar auðlindar í mótun á Íslandi. Lög um kvótakerfið svokallaða tóku gildi 1984 og þeim svo breytt verulega 1990. Það kerfi var fyrst og fremst hugsað sem fiskveiðistjórnunarkerfi. Ekkert sem hefði hindrað að hugsa það frá upphafi bæði sem tæki til veiðistjórnunar og sem auðlindastjórnun, þannig að úr yrði auðlindasjóður í þágu allra landsmanna eins og sá norski. En nei, það var ekki með í myndinni á þeim tíma.

Kvótakerfið: lífseigt deilumál sem endurspeglast í auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárinnar

Kvótakerfið hefur reynst lífseigt deilumál og það má segja að auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárinnar sé endurómur þeirra deilna. Því athyglisvert að það ákvæði virðist nú valda mestum deilum í meðförum flokksformanna á Alþingi. Enn ekkert samkomulag um þetta ákvæði.

Auðlinda- og þjóðarsjóðir í stjórnarsáttmálum: fiskur eða orka

Undanfarin ár hefur hugmyndin um einhvers konar auðlindasjóð komið upp í stjórnarsáttmálum. Vinstri stjórnin 2009 hafði á stefnuskrá að stofna auðlindasjóð sem ráðstafaði fiskveiðiréttindum ,,í eigu þjóðarinnar“ og arðurinn rynni í sjóð til atvinnuuppbyggingar. Fiskur þarna talinn þjóðarauðlind.

Næst segir af sjóði utan um ,,arð af orkuauðlindum í eigu ríkissjóðs“ í stjórnarsáttmála hinnar skammlífu stjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í janúar 2017. Sjóður sem átti að jafna sveiflur efnhagslífsins og tryggja komandi kynslóðum skerf af sameiginlegum auðlindum, reyndar aðeins orkuauðlindum.

Þjóðarsjóður núverandi ríkisstjórnar

Í stjórnarsáttmála núverandi stjórnar er talað um Þjóðarsjóð ,,utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni.“ Nokkurs konar viðlagasjóður gegn fjárhagslegum áföllum en líka svolítið eitthvað fyrir alla: styðja við nýsköpun og fjármagna hjúkrunaraðstöðu fyrir elstu kynslóðina.

Þjóðarsjóður sem áfallavörn, fyrir nýsköpun og gamla fólkið

Í október 2019 lagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fram frumvarp um Þjóðarsjóð, ,,eins konar áfallavörn fyrir þjóðina,“ eins og segir í frumvarpinu. Það er þessi eina auðlind, fyrirsjáanlegur arður af Landsvirkjun, sem vekur þessa hugmynd eins og fjármálaráðherra nefndi þegar hann lagði frumvarpið fram.

Það eru ákveðin tímamót að verða núna þegar við sjáum fram á að fá stórauknar arðgreiðslur frá Landsvirkjun sérstaklega. Við þær aðstæður þykir mér rétt að við stöldrum við og spyrjum okkur: er þetta rétti tíminn til að koma á fót áfallasjóði eins og þessum þjóðarsjóði, sem hér er verið að leggja til.

Það er óljóst hvort frumvarpið verður afgreitt fyrir kosningar en áhugavert að bera fyrirhugaðan þjóðarsjóð saman við olíusjóðinn norska, meira um það síðar.