Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Níu íbúðarhús rýmd á Siglufirði - hættustigi lýst yfir

20.01.2021 - 15:18
Mynd með færslu
 Mynd: Tómas Jóhannesson Veðurstofu  - RÚV
Ákveðið hefur verið að rýma níu íbúðarhús við tvær götur syðst í byggðinni á Siglufirði vegna snjóflóðahættu. Viðbúnaðarstig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi hefur verið hækkað í hættustig. Þá er varðskipið Týr á leiðinni norður.

Það er eitt hús við Suðurgötu og átta hús við Norðurtún sem verða rýmd. Rýmingin tekur gildi klukkan fjögur að sögn lögreglunnar í Fjallabyggð. Veðurstofa Íslands hefur ákveðið að hækka viðbúnaðarstig vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi í hættustig.

Aðgerðarstjórn hefur nú verið virkjuð á Akureyri og komið á stöðugum samskiptum við alla hlutaðeigandi til að tryggja upplýsingaflæði. Þá var óskað eftir því að Landhelgisgæslan sendi varðskip á svæðið til aðstoðar, ef á þyrfti að halda, og er varðskipið Týr á leiðinni norður.

Enn eru allir vegir til og frá Fjallabyggð ófærir. Bílalest fór í fylgd snjómoksturstækis um Siglufjarðarveg eftir hádegið, fólk sem nauðsynlega þurfti að komast leiðar sinnar.