Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Metfjöldi COVID-dauðsfalla í Bretlandi í gær

20.01.2021 - 04:40
epa08948475 NHS ambulances staff bring a patient into the Royal London hospital in London, Britain, 19 January 2021. Britain's national health service (NHS) is coming under sever pressure as Covid-19 hospital admissions continue to rise across the UK. Some one thousand people are dying each day from the disease.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
1.610 dauðsföll voru rakin til COVID-19 í Bretlandi í gær, fleiri en nokkru sinni á einum sólarhring þar í landi. Þar með hafa yfir 91.000 manns dáið af völdum sjúkdómsins í Bretlandi frá upphafi faraldursins, og tæplega 3,5 milljónir manna greinst með kórónaveiruna sem veldur honum.

Smitum fjölgaði mjög á Bretlandseyjum í desember og fram yfir áramót, og er það einkum rakið til nýlegs afbrigðis af veirunni, sem virðist smitast hraðar milli fólks en fyrri afbrigði. Hámarki var náð 8. janúar síðastliðinn, þegar rúmlega 68.000 smit voru staðfest í landinu.

Harðar sóttvarnaaðgerðir

Gripið var til harðra aðgerða fyrir hátíðarnar. Strangar fjöldatakmarkanir voru innleiddar, veitingahúsum, krám og öðrum samkomustöðum lokað, rétt eins og öllum verslunum sem ekki selja nauðsynjavarning, og brýnt fyrir fólki að halda sig sem mest heima hjá sér.

Þetta virðist vera að skila sér því smitum hefur fækkað jafnt og þétt og voru í gær helmingi færri en 8. janúar, eða 33.355. Í gær höfðu tæplega 4,3 milljónir Breta fengið fyrri skammt bóluefnis, samkvæmt opinberum tölum. Samkvæmt Mannfjöldaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna búa um 68 milljónir manna á Bretlandi.