„Lýðræðið er brothætt, það er viðkvæmt. En lýðræðið hefur sigrað,” sagði Biden. Sameining og samkennd var meginstef í ræðu hans. Ræða Bidens er í spilaranum hér að ofan.
Kamala Harris sór skömmu áður embættiseið og er orðin varaforseti Bandaríkjanna. Hún er fyrsta konan sem gegnir því embætti.
„Hlustum á hvort annað, sjáum hvort annað. Tölum saman. Verum góð hvort við annað. Ameríka er betri en það sem við höfum verið að sjá á þessum tímum sundrungar og glundroða. Sameinumst á ný. Hér stöndum við, nokkrum dögum eftir að æstur múgur hélt að ofbeldi gæti þaggað niður í rödd lýðræðisins. Það gerðist ekki. Það mun ekki gerast. Ekki í dag, ekki á morgun. Aldrei.”
Biden bað svo alla að fylgja sér í þögulli bæn til að minnast þeirra sem hafa dáið í heimsfaraldri kórónuveirunnar. 400.000 Bandaríkjamenn hafa dáið og búist er við að það versta sé ekki yfirstaðið.