Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Icelandair stefnir á að senda MAX í loftið í mars

20.01.2021 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Gangi áætlanir eftir tekur Icelandair að minnsta kosti sex flugvélar af gerðinni Boeing-737 MAX í notkun í mars. Kanadísk flugmálayfirvöld samþykktu notkun vélanna í gær, áður hafði notkun þeirra verið samþykkt í Bandaríkjunum og búist er við að leyfi verði veitt í Evrópu í næstu viku. MAX-vélar verða allt að þriðjungur flugflota Icelandair á næstu árum.

Vélarnar voru kyrrsettar fyrir tæpum tveimur árum eftir tvö flugslys sem rakin voru til galla í stýrikerfi þeirra. Eftir gagngerar endurbætur er nú farið að veita þeim flughæfnisskírteini á ný og nú er beðið ákvörðunar EASA, Flugeftirlitsstofnunar Evrópu. Haukur Reynisson flugrekstrarstjóri Icelandair segir að undirbúningur fyrir notkun vélanna sé í fullum gangi. 

„Það eru ýmis verkefni sem við þurfum að klára áður,“  segir Haukur. „Við þurfum að bæta við þjálfun flugmanna. Við þurfum að gera hugbúnaðaruppfærslur á ákveðnum kerfum í vélinni og breytingar á vélinni í samræmi við tilmæli EASA. Þetta þýðir að við eigum von á að geta mögulega farið að fljúga MAX í marsmánuði.“

Haukur segir að unnið sé út frá tímalínu sem geri ráð fyrir að notkun vélanna verði leyfð í Evrópu í næstu viku. Tólf MAX-vélar verða í flota Icelandair. Félagið hefur þegar fengið sex þeirra, þrjár eru tilbúnar til afhendingar hjá Boeing og áætlað er að þrjár verði afhentar á næsta og þarnæsta ári.

MAX-vélarnar verða stór hluti af flota Icelandair. Auk þeirra er félagið með 20 þotur af gerðinni Boeing 757 og 767. „Þetta eru samtals í kringum 30 vélar,“ segir Haukur.