Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Höfum svosem engar áhyggjur en það er fylgst vel með“

20.01.2021 - 19:27
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Helgason - RÚV
Búið er að rýma níu íbúðarhús við tvær götur á Siglufirði vegna snjóflóðahættu. Snjóflóð hafa fallið yfir skíðasvæðið á Siglufirði og Ólafsfjarðarmúla. Þá er varðskipið Týr á leiðinni norður.

Þrjú hús rýmd

Veðurstofan hækkaði viðbúnaðarstig vegna snjóflóðahættu á Siglufirði úr óvissustigi í hættustig um miðjan dag í dag. Áfram er óvissustig á öllu Norðurlandi.  Á sama tíma voru níu íbúðarhús við Suðurgötu og Norðurtún á Siglufirði rýmd. Aðgerðastjórn hefur verið virkjuð og von er á varðskipinu Tý til Siglufjarðar. Kristján Kristjánsson, yfirlögregluþjónn, er aðgerðarstjórn.

„Höfum svo sem engar áhyggjur“ 

„Það féllu náttúrlega snjóflóð um veginn um Ólafsfjarðarmúla og það féll líka snjóflóð úr fjalli sem er á móti Ólafsfirði þar sem að fjárhús eru og víðar eflaust þannig að hættustig eða óvissustig er á öllu þessu svæði, Tröllaskagasvæðinu,“  segir Kristján. 

Hafið þið einhverjar áhyggjur af næstu dögum?, þú segir að það sé spáð áframhaldandi úrkomu

„Nei við höfum svosem engar áhyggjur en það er fylgst vel með og ástandið metið.“ 

Verktakar stoppaðir af vegna snjóflóðahættu

Snjóflóð féll á skíðasvæðinu í Skarðsdal á Siglufirði í morgun, meðal annars á skíðaskálann og ljóst er að miklar skemmdir hafa orðið. Þá féllu tvö snjóflóð í Ólafsfjarðarmúla. Óskar Árnason, verkatki á Dalvík vann við snjókmustur á svæðinu í dag. 

„Þetta var mikið og djúpt, um 100 metra breitt. Við vorum komnir í gegn annað flóðið og út að hinu flóðinu þegar við vorum stoppaðir vegna snjóflóðahættu,“  segir Óskar. 

Varðskipið Týr á leiðinni

Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla hefur nú verið lokaður í að verða þrjá sólarhringa. Það sama gildir um Siglufjarðarveg og því komast íbúar á svæðinu hvorki lönd né strönd. „Bæði Ólafsfjörður og Siglufjörður eru einangraðir og þegar það er ófært í þessum bæjum viljum við hafa vaðið fyrir neðan okkur og geta flutt hjálpargögn til þeirra ef á þarf að halda,“ segir Kristján.  

Eru einhver skilaboð til íbúa á þessum svæðum?

„Bara að fylgjast vel með, fylgjast vel með veðurspám og færð hjá vegagerðinni og öðru ef það ætlar eitthvað að hreyfa sig.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Helgason - RÚV
Mynd: Sigurður Helgason