Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Evrópa á loksins aftur vin í Hvíta húsinu“

20.01.2021 - 20:17
epa08711326 European Commission President Ursula von der Leyen makes a statement ahead of the second face-to-face EU summit since the coronavirus disease (COVID-19) outbreak, in Brussels, Belgium, 01 October 2020.  EPA-EFE/JOHANNA GERON / POOL
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
„Þetta nýja upphaf er augnablikið sem við höfum beðið svo lengi eftir. Eftir fjögur löng ár á Evrópu aftur vin í Hvíta húsinu,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við Evrópuþingmenn um það leyti sem Joe Biden var að taka við lyklavöldum í Hvíta húsinu. Þótt margir telji að Biden eigi eftir að bæta samskipti Evrópu og Bandaríkjanna eru aðrir sem óttast að skaðinn eftir Trump-tímabilið sé einfaldlega of mikill.

Það mátti skynja ákveðinn létti í hamingjuóskum þjóðarleiðtoga þegar Joe Biden sór embættiseið sinn sem forseti Bandaríkjanna í Washington, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian. 

Enginn velkist í vafa um að Biden á ærið verkefni fyrir höndum; COVID-faraldurinn heimafyrir og svo stirð samskipti við helstu vinaþjóðir eftir forsetatíð Trumps.

Leiðtogum helstu Evrópuþjóða virtist hreinlega létt í dag en Guardian bendir þó á könnun sem leiðir í ljós að Evrópubúar telja að það verði erfitt að treysta á Bandaríkin eftir Trump-tímabilið. Þá telja fleiri að Biden takist ekki að lagfæra samskiptin.

„Í baráttunni gegn COVID, loftlagsbreytingum, öryggis-og varnarmálum og við að verja lýðræðið eru markmið okkar þau sömu,“ sagði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. Hann mátti þola mikla gagnrýni fyrir að þykja of vinveittur Donald Trump, fyrrverandi forseta

Frank-Walter Steinmeier, forsetii Þýskalands, fór ekki leynt með létti sinn og sagði lýðræðið hafa mátt þola mikið undir stjórn Donalds Trump. „Í dag er góður dagur fyrir lýðræðið.“ Alþjóðasamfélagið gæti farið að vinna saman aftur á ný. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagðist hlakka til nýs kafla með Biden. Valdaskiptin í dag væru sigur lýðræðisins. 

Guiseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, sagðist hlakka til forsetatíðar Bidens og Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, sagði Biden hafa sigrað öfgahægrið og þær blekkingar, sundrungu og misbeitingu sem það hefði í hávegum. Sanches sagði að fyrir fimm árum hefðu allir haldið að Trump væri bara vondur brandari.  Honum hefði næstum því tekist að stefna lýðræðinu í einu valdamesta ríki heims í hættu.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, óskaði Joe Biden og Kamölu Harris til hamingju með daginn á Twitter-síðu sinni.