Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

ESA áminnir Ísland vegna leigubílalöggjafar

20.01.2021 - 17:22
Mynd með færslu
 Mynd: Eftirlitsstofnun EFTA - RÚV
Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, tók í dag fyrsta skrefið í samningsbrotamáli gegn Íslandi fyrir að virða ekki EES reglur um staðfesturétt á leigubílamarkaði með því að senda samgönguráðuneytinu áminningu. Þar kemst ESA að þeirri niðurstöðu að löggjöf um leigubíla á Íslandi feli í sér óréttmæta takmörkun á staðfesturétti og brjóti því í bága við EES samninginn.

Takmörkum leyfa er samningsbrot

„Með því að fjarlægja hindranir að leigubílamarkaðinum er hægt að stuðla að nýsköpun í atvinnugreininni sem leiðir til lægri fargjalda, betri þjónustu og fleiri valmöguleika fyrir neytendur,” segir Frank J. Büchel, stjórnarmaður ESA í tilkynningu um áminninguna. ESA hóf frumkvæðisrannsókn á íslenskum leigubílsstjóramarkaði í janúar 2017.

Núverandi löggjöf á Íslandi takmarkar úthlutun atvinnuleyfa fyrir leigubílaaaksur innan takmörkunarsvæða. Reglur um úthlutun atvinnuleyfa innan skilgreindra svæða eru ekki hlutlægar og hygla núverandi leyfishafa, segir í áminningunni. Þetta felur í sér mögulegar aðgangshindranir og hindrar fyrir að nýir aðilar hefji starfsemi í atvinnugreininni. Þar segir að Ísland hafi nú tvo mánuði til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ESA ákveður hvort taka eigi málið lengra. 

Fyrstu umræðu um frumvarpið lokið

Fyrstu umræðu um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lauk í október og gekk það þá til umhverfis- og samgöngu­nefndar.

Ein af meginbreytingum frumvarpsins er að afnema fjöldatakmarkanir á atvinnuleyfum til reksturs leigubíla. Þannig munu öll ákvæði sem snúa að lágmarksnýtingu atvinnuleyfis verða óþörf, svo sem skilyrðið um að um sé að ræða aðalatvinnu leyfishafa, um veitingu undanþágu vegna veikinda, orlofs og þess háttar, um tímabundna innlögn leyfa, notkun forfallabílstjóra og fleiri.

Leigubílstjórar lögðust gegn frumvarpinu

Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra og Bifreiðastjórafélagsins Frama lögðust  gegn frumvarpinu með þeim rökum að áhugasamir muni sinna akstri á stöðum og tímum þegar mestra viðskipta er að vænta og hafa þannig lifibrauðið af þeim sem nú þegar sinna leigubílaakstri með þeim afleiðingum að þjónusta versni.