Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Breyting ætluð á trúfélagalögum í samræmi við áhættumat

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á upplýsingafundi 14.08.2020
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.  Mynd: RÚV - Skjáskot
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra telur fullt tilefni til að endurskoða ákvæði laga um skráð trú- og lífskoðunarfélög með hliðsjón af ábendingum í áhættumati ríkislögreglustjóra um skýrslugjöf og upplýsingar um fjárhag og ráðstöfun fjármuna slíkra félaga.

Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónassonar þingmanns utan flokka.

Í svarinu segir jafnframt að ýmsar aðgerðir sem ríkislögreglustjóri ráðlagði að grípa skyldi til sem viðbragðs við veikleikum hafi verið tilgreindar í aðgerðaráætlun stjórnvalda gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka árið 2019.

Til hafi staðið að gera strangari kröfur um hæfi fyrirsvarsmanna slíkra félaga, auka kröfur um ráðstöfun fjármuna og efla eftirlit með félögunum og fjárreiðum þeirra. Það hafi ekki tekist í október síðastliðnum eins og til hafi staðið.

Áslaug Arna segir að nú standi yfir endurskoðun á áhættumati ríkislögreglustjóra og aðgerðaáætlun stjórnvalda í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem gert er ráð fyrir að ljúki núna í febrúar.

Nú sé lögð áhersla á að lögum um trú- og lífskoðunarélög verði breytt í samræmi við það nýja mat.