Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Bókin fylgist ekki með þér en hún fylgir þér út í lífið

Mynd: Menningin / RÚV

Bókin fylgist ekki með þér en hún fylgir þér út í lífið

20.01.2021 - 19:58

Höfundar

Andri Snær Magnason hlýtur viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins 2020. Höfundurinn er hugsi yfir áhrifum tækninýjunga á bóklestur og samfélag.

Ávarp Andra Snæs Magnasonar, handhafa viðurkenningar Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins 2020:

Ég þakka kærlega fyrir þennan heiður. Verðlaunin tilheyra árinu 2020 og lenda því á 90 ára afmælisárinu. Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins eru elsta viðurkenning til rithöfunda á Íslandi og það er heiður að vera á lista.

Þarna eru flestir af mínum uppáhalds höfundum. Frá Snorra Hjartasyni til Svövu Jakobs og Thors, þarna er Guðrún Helga, Gyrðir, Þórarinn Eldjárn og lengi má telja. Mér þykir vænt um að tilheyra þessum hópi vegna þess að þetta fólk kveikti áhuga minn á bókmenntum. Mér er sagt að þetta séu einu verðlaunin sem eru veitt fyrir ævistarf, ég vona nú samt að ég sé bara c.a hálfnaður.

Fyrsta birting á verki eftir mig var í Ríkisútvarpinu árið 1994, þegar ég var tvítugur. Ég sendi inn sögu um sjóara og hafmeyju í smásagnasamkeppni í tilefni af 50 ára lýðveldisafmælinu og sagan var valin til flutnings. Sá sem færði mér tíðindin sagði að ég mætti velja leikara. Ég ákvað að vera djarfur og nefna uppáhalds leikarann minn, Ingvar Sigurðsson og það varð úr. Ég starfaði þetta sumar sem verkstjóri hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Það var eftirminnileg stund þegar ég stöðvaði pallbílinn úti í vegkanti, skipti af x-inu yfir á rás 1 og beið þolinmóður á meðan morgunleikfimin kláraðist. Vinnufélagarnir sváfu yfir sögunni sem voru vonbrigði en síðar um sumarið var vinur minn staddur á Ströndum og gamall trillukarl sagði honum söguna í endursögn. Þetta var áður en einhver gat hringt í mann eftir útsendinguna eða lækað á facebook. Fyrsta gsm mastrið var ekki reist fyrr en í ágúst sama ár. Þarna fékk ég mín fyrstu skáldalaun, gott ef ég ekki ígildi vikukaups hjá Rafmagnsveitunni.

Þetta var mikilvægt augnablik fyrir ungt skáld, þótt þetta hafi ekki verið stórviðburður í bókmenntasögunni. En þetta minnir mig á hvað það er mikilvægt að taka vel á móti þeim sem stíga sín fyrstu skref út á skáldabrautina, að eiga útvarp sem segir sögur og samfélag sem tekur á móti verkunum, dæmir og kryfur og hvetur fólk til að ráðast í stærri verkefni. Það skrifar nefnilega enginn inn í tómarúm.

Ég hef alltaf séð bókmenntirnar sem hugsjón. Það eitt að skrifa fyrir okkar samfélag hefur verið hugsjón fyrir mér. Að búa til sögur fyrir samtímann, þróa listformið, að reyna að hafa áhrif með orðum, hvort sem það er að koma ljóðum inn í nýtt samhengi, að gera barnabók, að skrifa vísindaskáldskap eða um framtíð okkar í bókinni um Tímann og vatnið.

Þegar ég skoða ferilinn þá eru margir sem koma að hverju verki. Þeir sem kveiktu löngun til að skrifa, yfirlesarar, útgefendur og ritstjórar, Magga, vinir mínir og fjölskylda, svo eru samstarfsmenn í leikhúsi og kvikmyndagerð, kápuhönnuðir, umbrotsmenn og ekki síst þýðendur. Þátt þeirra má ekki vanmeta. Það er ómetanlegt að geta unnið við að hugsa og skrifa á íslensku og eiga samtal við ítalskan eða pólskan lesanda um verkið innan við ári síðar.

Það skipti máli þegar ég byrjaði að skrifa að eiga sér fyrirmyndir í starfandi hópi rithöfunda. Það er ekki sjálfgefið að svo stór hópur semji bækur fyrir jafn lítið land,  það gerðist ekki af sjálfu sér heldur var tekin ákvörðun um að rækta upp atvinnumennsku í bókmenntum. Lög um stuðning við listamenn frá árinu 1991 gjörbreyttu starfsskilyrðum rithöfunda á Íslandi. Mörg bestu verk síðustu áratuga eiga þessum sjóði mikið að þakka. Hundruð bóka hafa hafa ratað til milljóna lesenda um allan heim enda hefur orðið sprenging í útgáfu erlendis. Þetta gerðist ekki af tilviljun.

Framsýnir stjórnmálamenn skipta máli. Þegar ég byrjaði á ræðunni mundi ég ekki hver var menntamálaráðherra árið 1991. Ég fletti því upp og menntamálaráðherra var Svavar Gestsson. Hann féll frá fyrir nokkrum dögum og ég vil nota tækifærið og þakka honum framsýnina og votta fjölskyldu hans samúð mína. Þegar Íslensk bókmenntasaga frá 1991 er rituð ætti nafn hans að koma fram, vegna þess að það þarf innblástur og hæfileika til að skrifa bók en ekki síst, tíma, einbeitingu og samfellu - og lögin tryggðu íslenskum bókmenntum einmitt þetta. 

Sem listamaður getur maður valið að skapa fyrir það form sem er tiltækt á hverjum tíma og miðlarnir eru misgamlir. Útvarpið er 90 ára, fyrsta kvikmyndasýningin var hérlendis fyrir 117 árum, Sjónvarpið er 55 ára, internet fyrir almenning ekki nema 25 ára, snjallsíminn c.a 13 ára. Bókin er 580 ára ef miðað er við Gutenberg, stafrófið íslenska er 900 ára, elstu leikritin 2500 ára og listin að segja ljóð og sögur er jafn gömul manninum. Hvaða miðill verður til næst gæti maður spurt.

Kjarninn í þessu öllu er löngunin til að segja sögur, að koma einhverju á framfæri, búa til list úr orðum eða hugsunum. Löngun til að muna eða láta muna eftir sér, til að skemmta, til að tengjast öðrum, hafa áhrif á heiminn. Hjá mér hefur skiptiræktun hentað best. Eins og bóndi sem viðheldur frjósemi með því að rækta korn eitt árið, grasker hið næsta, síðan sólblóm og hleypa að villigróðri fjórða árið. Ég hef skrifað ljóð eitt árið, barnabók hið næsta, fræðirit þar næsta og svo kannski týndur fjórða árið.

Að skrifa er að sigla með óvissunni, að vera vakandi, að fylgjast með, að taka eftir því sem maður tekur eftir eins og Þorvaldur Þorsteinsson komst að orði. Við búum við stöðugar tilraunir á samfélagi okkar og umrótinu sem fylgir þeim. Það skrifar enginn í tómarúmi en nú er vandinn, hvernig á að skrifa inn í hið troðfulla rými. Hver er þörfin fyrir bækur, þegar heimurinn er svo stappfullur af upplýsingum?

Það er vandi að feta milliveginn þegar ný tækni kemur til sögunnar. Það getur verið bláeyg ofsahrifning eða tortryggni. Maður vill ekki vera afturhald en við getum líka sofið á verðinum. Það var bylting að tengja saman heiminn gegnum internet og samfélagsmiðla. Það hefur verið magnað að upplifa breytingar þar sem hver sem er getur komið hugsunum sínum, óritstýrðum, milliliðalaust á framfæri.

Það er magnað að geta látið alla vita hvað maður fékk í hádegismat og birta andlitið sitt daglega en hvers virði er það til langs tíma er annað mál.  

Við sjáum allt í einu að tímaþjófarnir eru raunverulegir og úthugsaðir tímaþjófar. Oft hefur maður lagt frá sér skáldsögu þegar síminn pípir og rankar við sér tveim tímum síðar yfir myndbandi af fyndnum kettlingum. Á meðan rithöfundur reynir af fremsta megni að beita list sinni til að halda athygli lesandans, eru netfyrirtækin með rauntímaupplýsingar, ofurtölvur og fremstu sérfræðinga heims í vinnu við að greina hvað fær þig til að hanga lengur við skjáinn. Þeir hafa hakkað frumstætt heilabú okkar, þeir vita hvað kitlar, hvað stuðar, hvaða espir og hvetur. Smám saman er að verða til stafrænt heróín og fjöggura tíma screentime á dag þykir bara nokkuð vel sloppið. Tækin eru hönnuð eins og spilakassar, þau dáleiða mann og gleypa heilu sólarhringana án þess að nokkur muni í hvað tíminn fór.

Það þekkja það margir að hafa stolist til að vaka frameftir með vasaljós undir sæng niðursokkinn í hugarheimi persónu í áhugaverðri bók. En er það sambærilegt við að vera fastur í símanum í þrjá fjóra tíma, kvöld eftir kvöld, mánuðum saman?

Kannski hefur þörfin til að greina og skilja samtímann aldrei verið meiri en nú. Við tókum byltingunni fagnandi en sífellt fleiri spyrja hvort það hafi verið góð hugmynd af afhenda milljarðarmæringum úti í heimi allt vald yfir samfélagi okkar og menningu,  að leyfa tölvum og algóritmum að ritstýra upplýsingaflæðinu til okkar? Er það góð hugmynd að leyfa einhverjum að kortleggja skoðanir okkar og ferðir, leyfa þeim að selja hæstbjóðanda aðgang að okkur, þar sem menn séð hvernig þeir breyta hegðun manns og skoðunum í rauntíma? Fer gróði fyrirtækis saman við hagsmuni almennings?

Bækur, bókmenntir, ljóð og sögur eru ekki í eðli sínu betri eða verri en aðrir miðlar. Ég tók einu sinni viðtal við Slavoj Zizek og hann talaði um ljóðlistina, ekki hvernig hún sameinaði, heldur hvernig hún var notuð til að kynda upp þjóðernisrembing og afmennskun andstæðingsins í aðdraganda borgarastríðs á Balkanskaga. Ég myndi frekar treysta spilltum stjórnmálamanni en ljóðskáldi sagði hann. Ljóðskáldin bjuggu til jarðveginn og það þurfti bara að afhenda fólki byssur, stríðið var í rauninni löngu hafið. Það er ekki sjálfgefið að bókmenntir séu farvegur fyrir upplýsingu, mannréttindi og lýðræði.

Við sjáum allt í einu að facebook er frekar skrítin bók. Í góðri bók er ákveðinn millivegur, hún leiðir mann gegnum flókinn veruleika, marglaga sannleika, sérstakar reynslur og hugsanir sem verða samt sammannlegar. Það er frábært að finna samfélag fólks sem deilir sömu áhugamálum og lífsýn og maður sjálfur, en það er verra þegar forritið verðlaunar heitar tilfinningar, það sem er mjög fyndið, algerlega hræðilegt, fullkomlega hneykslandi, algerlega fáránlegt. Á sama tíma þurfa fjölmiðlar að lúta sömu lögmálum, í stað þess að heilt blað þurfi grípandi fyrirsögn, þarf hver frétt að selja sig á sama hátt. Við rönkum við okkur í heimi þar sem sannleikurinn er einfaldur og einstaklingsbundinn. Þegar við mætum fólki sem hefur álpast inn í annan algóritma þá hefur hvorugt heyrt röksemdir hins, en báðum aðilum er ljóst að andstæðingurinn er varla manneskja.

 Tímaþjófar úti í heimi hafa krakað til sínu stórum hluta af frítíma okkar en það er verra ef mennskan og traustið í samfélaginu hverfur samtímis.

Svo virðist sem það sem átti að sameina heiminn vilji sundra honum strax aftur. Það sem átti að tengja okkur við annað fólk hefur skapað meiri einangrun og kvíða en okkur óraði fyrir. Það er engu líkara en klofningurinn sé forritaður inn í algóritmana, sá sem slysast til að lesa sér um að loftslagsbreytingar séu lygi og samsæri vísindamanna, fær einungis meðmæli um að lesa fleiri slíkar síður þaðan í frá, þar nýr sannleikur verður til.

Þversögnin er sú að þessi stappfulli heimur kallar á greiningu og viðbrögð, hann kallar á bækur vegna þess að bókin getur gert það sem tæknin getur ekki gert. Engin önnur tækni er jafn góð í að setja þig í hugarheim fólks. Bókin lækar þig ekki, ertir ekki, truflar þig ekki, fylgist ekki með þér en fylgir þér samt út lífið ef hún er vel skrifuð.

Á næstu árum og áratugum þurfum við að greina og glíma við ólíklegustu áskoranir. Íslenskan á í harðri samkeppni í upplýsingaflóðinu og við þurfum að efla tungumálið um leið og við hleypum að röddum fólks sem býr hér og á sér önnur móðurmál. Við þurfum að endurskoða næstum öll gildi okkar, neysluhætti og efnahagskerfi til að forða jörðinni frá loftslagshamförum.

Nú sem aldrei fyrr þá þurfum við á ímyndunarafli að halda, við þurfum á sögum að halda og við þurfum að taka vel á móti nýrri kynslóð sem vill skrifa fyrir okkar samfélag.

Ég þakka heiðurinn. Takk fyrir mig.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hefði ekki ráðlagt sjálfum sér að verða rithöfundur

Bókmenntir

Andri Snær fær viðurkenningu Rithöfundasjóðs RÚV